Herinn fær auknar heimildir í Beirút

Horft í dag yfir eyðilegginguna við höfnina.
Horft í dag yfir eyðilegginguna við höfnina. AFP

Líbanska þingið samþykkti í dag að lýsa yfir tveggja vikna neyðarástandi í höfuðborginni Beirút, í kjölfar sprengingarinnar í síðustu viku sem varð að minnsta kosti 171 að bana.

Með yfirlýsingunni fær her landsins um leið í hendur auknar heimildir til að kveða niður mótmæli borgara gegn yfirvöldum og efri stétt landsins. Þau höfðu verið tíð áður en faraldur kórónuveirunnar bar þar að landi fyrr á árinu, en hafa aftur risið upp eftir að umfang eyðileggingarinnar varð fólki ljóst.

Ítrekaðar viðvaranir

Tugir mótmælenda reyndu í dag að koma í veg fyrir að bifreiðar þingmanna kæmust leiðar sinnar að þinginu en máttu sín lítils gegn liðsmönnum öryggissveita landsins.

Líbanar eru bálreiðir margir yfir því hvernig stjórnmálamenn gátu leyft risastórri sendingu af ammóníumnítrati að geymast árum saman í vöruhúsi við höfnina þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir.

Rannsókn AFP-fréttaveitunnar hefur sýnt fram á að allt fram til 3. ágúst, degi fyrir sprenginguna, höfðu embættismenn skipst á viðvörunum vegna varningsins en ekkert aðhafst.

mbl.is