Misnotkun og ofbeldi beið hennar

Þegar Xiao Jia missti sjónina á unglingsaldri var henni sagt að nudd væri rétta starfið fyrir hana ef hún vildi fá heiðvirt starf. Annað kom í ljós þar sem hennar beið misnotkun og ofbeldi þar sem öryggi kvenna er lítið sem ekkert.

Í Kína er algengt að sjónskertir séu hvattir til að starfa á nuddstofum þar sem það er talið að þeir séu sérstaklega næmir þegar kemur að snertingu. Jafnframt vegna þess að markvisst eru fatlaðir skildir að frá öðrum í kínversku samfélaginu. Afar fáar atvinnugreinar standa blindum til boða. 

Xiao segir að karlkynsviðskiptavinir hafi ítrekað káfað á henni og eins reynt að þvinga hana til að snerta þá á óviðeigandi stöðum. Hún segir í samtali við AFP að í eitt skiptið hafi karl farið með hana inn í herbergi á nuddstofunni og læst. Síðan hafi hann reynt að þvingað hana til að nudda ákveðna líkamsparta. 

„Hann sagði að ef ég hlýddi ekki myndi hann brjóta allt og bramla. Hann var drukkinn og sagðist hafa tekið fíkniefni. Ég var skelfingu lostin,“ segir Xiao í viðtalinu en hún er 28 ára gömul. 

Talið er að 40% kvenna í Kína hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni en þegar kynferðislegt ofbeldi er kært er mjög erfitt að fá viðkomandi sakfellda.  

Lögmaðurinn Li Ying segir að sjónskertar konur sem starfi við nudd séu í enn verri stöðu og mun hærra hlutfall þeirra hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni en aðrar konur í landinu. 

Li er fyrsti lögmaðurinn sem fer með slíkt mál eftir að ný lög voru sett varðandi kynferðislega áreitni og vann hún málið. 

Ming Yue hefur starfað á rúmlega tíu nuddstofum og á hverri þeirra hefur hún orðið fyrir misnotkun af hálfu viðskiptavina. Hún var aðeins 18 ára þegar viðskiptavinur reyndi að káfa á brjóstum hennar og lærum þegar hún var að nudda hann.

„Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera þar sem ég hafði aldrei orðið fyrir þessu áður. Það hafði enginn kennt mér að bregðast við slíku.“

Þriðja konan sem AFP ræddi við segir að hún hafi ítrekað þurft að takast á við viðskiptavini sem reyndu að niðurlægja hana. Til að mynda með því að koma nærbuxnalausir í þeirri von að hún myndi snerta kynfæri þeirra óvart. Eða reyndu að neyða hana til þess. 

Enginn þeirra kvenna sem AFP fréttastofan ræddi við hafði kært þetta til lögreglu. Enda hefði það þýtt lítið segja þær. 

Xiao Jia hefur ítrekað orðið fyrir því að karlar káfi …
Xiao Jia hefur ítrekað orðið fyrir því að karlar káfi á henni þegar hún nuddar þá. AFP
mbl.is