Óviðunandi aðstaða til handþvottar í 43% skóla

AFP

Um 43% skóla á heimsvísu skorti viðundandi aðstöðu fyrir handþvott þegar kórónuveirufaraldurinn hófst. Þetta segir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO), en stofnunin segir jafnframt að það sé lykilatriði að hafa þetta í lagi þegar huga eigi að því að opna skóla á nýjan leik. 

Stofnunin og barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) segja í sameiginlegri skýrslu að þetta varði um 818 milljónir barna á heimsvísu. Þetta ógni heilsu þeirra því þau séu útsettari fyrir því að smitast af kórónuveirunni sem og öðrum smitsjúkdómum. 

Af þeim sækja um 355 milljón börn skóla sem eru með hreinlætisaðstöðu með vatni en bjóða ekki upp á handsápu. Afgangurinn býr við algjört aðstöðuleysi, m.a. er hvergi hægt að komast í rennandi vatn. 

Það er mikilvægt að börn og fullorðnir hafi aðstöðu til …
Það er mikilvægt að börn og fullorðnir hafi aðstöðu til að geta þvegið sér um hendur með vatni og sápu. AFP

Sextíu ríki eru á lista yfir þau lönd þar sem ástandið er verst vegna heimsfaraldursins þar sem heilsu barnanna er stefnt í hættu. Í skýrslunni segir að þrjú af hverjum fjórum börnum hafi búið við óviðunandi aðstæður til handþvottar áður en faraldurinn braust út. 

Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, segir að faraldurinn hafi skapað aðstæður án fordæma sem ógni menntun og heilsu barna. Það sé mikilvægt að menntun barna sé sett í forgang en það þýði að skólar verði að vera öruggir, m.a. verði að vera til aðstaða þar sem börn geti þvegið sér almennilega um hendur, fengið hreint drykkjarvatn og sóttvarnir séu í lagi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert