Trump vill ávarpa allsherjarþingið

Donald Trump forseti á blaðamannafundi í Hvíta húsinu.
Donald Trump forseti á blaðamannafundi í Hvíta húsinu. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist vilja ávarpa allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í september í eigin persónu, jafnvel þótt búist sé við að margir aðrir þjóðarleiðtogar haldi sig fjarri sökum faraldurs kórónuveirunnar.

„Ég er að hugsa um að fara beint til SÞ til að halda ræðuna. Margt fólk mun, vegna Covid, ekki eiga kost á að vera þarna,“ sagði forsetinn á blaðamannafundi síðdegis vestanhafs í dag.

Bætti hann við að hann teldi það myndu hæfa betur að flytja ræðuna á þann máta.

„Ég finn til nokkurs konar skyldu sem forseti Bandaríkjanna, að vera í Sameinuðu þjóðunum og flytja það sem á eftir að verða mikilvæg ræða,“ tjáði Trump blaðamönnum.

„Verður ekki eins og áður“

Salur allsherjarþingsins yrði líklega hálftómur.

„Þetta verður ekki eins og áður. Við sjáum til hvað gerist.“

Aðalhluti allsherjarþingsins í ár, þegar leiðtogar heimsins skiptast á að halda ræður, er á dagskrá frá 21. til 29. september.

Rúmum mánuði síðar verður gengið til kosninga í Bandaríkjunum, þar sem valið stendur á milli Trumps annars vegar og fulltrúa demókrata hins vegar, varaforsetans fyrrverandi Joe Biden.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert