Tveir látnir og hundruð særð í mótmælum

Mótmæli hafa geisað um allt Hvíta-Rússland frá því á sunnudag.
Mótmæli hafa geisað um allt Hvíta-Rússland frá því á sunnudag. AFP

Mótmælandi lést í haldi lögreglu í Hvíta-Rússlandi í nótt. Tveir hafa nú látist og yfir 200 særst í mótmælunum og sem hófust eftir forsetakosningar í landinu á sunnudag. Yfirvöld segja dánarorsök mannsins, sem var 25 ára, vera ókunna. Móðir hans segir hann hafa verið hjartveikan og að honum hafi verið haldið í lögreglubíl tímunum saman.

Rannsóknarnefnd lögreglunnar í Hvíta-Rússlandi segir að maðurinn hafi verið handtekinn á sunnudag og síðar sendur í tíu daga fangelsi fyrir þátttöku í ólöglegum mótmælum. Hann var sendur á sjúkrahús þegar heilsu hans hrakaði en lést þar.

Móðir hans segir hins vegar í samtali við Radio Free Europe, sjónvarpsfréttastöð Bandaríkjastjórnar í Evrópu, að hann hafi ekki tekið þátt í neinum mótmælum heldur verið á leið að hitta kærustu sína þegar hann var handtekinn.

Stjórnvöld víða um heim, þar á meðal íslensk, hafa mótmælt framgöngu hvítrússneskra yfirvalda í garð mótmælenda. Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt ofbeldi stjórnvalda; lögreglumenn fari fram með offorsi, skjóti gúmmíkúlum að mótmælendum og hendi. 

„Skýrslur sýna að meira en 6.000 manns hafi verið handteknir síðustu þrjá daga, þar á meðal vegfarendur og börn, sem bendir til tilhneigingu til fjöldahandtöku sem er skýrt brot á alþjóðlegum grundvallarmannréttindum,“ segir í yfirlýsingu Michelle Bachelet, framkvæmdastjóra Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert