Hamstra fyrir lokun Svíþjóðar

Röð bifreiða við tollstöðina í Magnormoen þar sem umferð til …
Röð bifreiða við tollstöðina í Magnormoen þar sem umferð til og frá Värmland í Svíþjóð fer um. Myndin er tekin 27. júlí þegar Värmland var nýkomið með græna merkingu og verslunarþyrstir Norðmenn flykktust yfir landamærin með greiðslukortin á lofti. Á miðnætti í kvöld er draumurinn búinn í bili þegar Värmland fær á ný rauða merkingu. Ljósmynd/Norska tollgæslan

Frásagnir af Norðmönnum, sem forða sér hver um annan þveran frá löndum sem eru á leið í rauða merkingu í kórónuflokkun norskra stjórnvalda, hafa verið áberandi í fjölmiðlum síðustu vikur. Er því þó öfugt farið með Svíþjóð en þangað streyma Norðmenn nú sem aldrei fyrr áður en sex lén Svíþjóðar verða rauð á ný á miðnætti í kvöld.

Tilgangurinn er að gera lokainnkaupin áður en Östergötland, Örebro, Blekinge, Värmland, Uppsala og Dalarna verða bannsvæði á ný, en Norðmenn, búsettir nálægt sænsku landamærunum, máttu heldur betur þreyja þorrann meðan öll Svíþjóð var lokuð mánuðum saman. Verulegur munur er á vöruverði nágrannaríkjanna og vega tóbak og áfengi þar þungt í margri verslunarferðinni þar sem munar allt að helmingi á verði.

Til marks um þetta bíða nú 24 bretti af áfengi í stórmarkaði í Långflon í Värmland en þar skammt frá Noregsmegin eru bæir á borð við Elverum, Hamar og Lillehammer. Engin áfengisútsala er í versluninni en henni leyfist þó að panta áfengi frá sænsku ríkiseinkasölunni Systembolaget í samræmi við pantanir norskra viðskiptavina.

„Bara fjórir Svíar“

Greindi Stian Reiten Johansen, einn eigenda Långflons stormarknad, frá því í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í gær að hann vænti þess að fullt yrði út úr dyrum fram að lokun í kvöld.

Ætla mætti að sneisafullur stórmarkaður af fólki legði lítið á vogarskálar sóttvarna í Svíþjóð sem norsk stjórnvöld skilgreina nú að stórum hluta sem há-áhættusvæði en Tore Jensen, norskur verslunarferðamaður, kvað það ekki standa sér fyrir svefni:

„Hérna eru bara fjórir Svíar. Ég sé ekki vandamálið við að taka einn skreppitúr. Rýmið er líka ágætt hérna svo þetta er ekki hættulegt.“

Með öll spjót úti fyrir landamæralokunina auglýsir Långflons-markaðurinn að þar …
Með öll spjót úti fyrir landamæralokunina auglýsir Långflons-markaðurinn að þar verði opið til klukkan 23:30 í kvöld. Bent Høie, heilbrigðisráðherra Noregs, er lítið skemmt og segir hann slíka markaðssetningu grafa undan ferðaráðleggingum og -reglum norskra stjórnvalda. Ljósmynd/Långflons stormarknad

Að sögn norskra tollvarða hefur umferðin verið umtalsverð yfir landamærin, á miðvikudag hafi til dæmis yfir átta þúsund bifreiðar ekið yfir til Svíþjóðar um Magnormoen-tollstöðina eina, þar sem ekið er yfir til Värmland, í stað þess sem venjan er á virkum degi, milli sex og sjö þúsund.

Erfitt að spá um hve lengi verslunin heldur út

Kjersti Sæter, umdæmisstjóri norskra tollyfirvalda á svæðinu, segir verslunina í ódýra nágrannalandinu augljóslega vera helsta drifkraftinn. „Okkur finnst hálfdapurlegt að fólk fari yfir landamærin bara til að versla og láti þar með allar ráðleggingar stjórnvalda sem vind um eyru þjóta,“ segir Sæter þrátt fyrir að rauða merkingin taki ekki gildi fyrr en seint í kvöld.

Skammt frá landamærunum Svíþjóðarmegin er annar vinsæll verslunarstaður Norðmanna, Charlottenberg-verslunarmiðstöðin. Claes Sjöholm verslunarstjóri segir fjölda Norðmanna hafa lagt leið sína til hans. „Við höfum séð mikla fjölgun viðskiptavina og ég hugsa að það muni haldast alveg fram að helgi. Hjá okkur hefur verið öruggt að koma og versla og er það enn, við leggjum mikla áherslu á sóttvarnir,“ segir Sjöholm.

Enn fremur segir hann vandasamt að spá um hve lengi verslunarmiðstöðin haldi út við hlið lokaðra landamæra. Þó segist hann ekki óttast gjaldþrot enn sem komið er. Rautt Värmland verði þó kaupmönnum þar ótvírætt myllusteinn um háls og höggið á reksturinn þungt enda má nánast tala um landamæraverslunina við Norðmenn sem sjálfstæða atvinnugrein í Svíþjóð.

NRK

NRKII (heilbrigðisráðherra brúnaþungur)

NRKIII (ný rauð lönd og svæði í kvöld)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert