„Sérðu eftir öllum lygunum?“

„Sérðu eftir öllum lygunum?“ var Donald Trump, forseti Bandaríkjanna spurður af blaðamanni á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær. Trump hváði og bað um spurningu frá öðrum fréttamanni. Ástæðan fyrir spurningu blaðamannsins voru vangaveltur Trump um hvort Harris væri kjörgeng.

Trump hélt áfram á fundinum að gagnrýna varaforsetaefni demókrata, Kamala Harris, nú snerist það um að hann hefði efasemdir um kjörgengi hennar en tók fram að hann gæti ekki fullyrt neitt í þeim efnum.

Um er að ræða svipaðar ásakanir og hann bar fram í garð fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, Barack Obama. Sem reyndust lygi hjá Trump en um var að ræða efasemdir um hvar Obama væri fæddur. Að það væri lygi að hann hefði fæðst í Bandaríkjunum. 

Leiðarahöfundur Washington Post varar við því hversu hættulegar lygar sem þessar eru. Að Trump skuli halda fram einhverri þvælu sem búið er að leiðrétta. Það komi ekki í veg fyrir að hann haldi þvælunni áfram. Alveg eins og hann gerði í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum. Þá var Trump kjörinn forseti Bandaríkjanna. 

Kamala Harris fæddist 20. október 1964 í Oakland Kaliforníu og foreldrar hennar eru innflytjendur, móðir frá Indlandi og faðir frá Jamaíka. 

Á fundinum var Trump spurður út í orðróm á samfélagsmiðlum um að Harris væri ekki kjörgeng og hvað hann gæti sagt um það. „Ég heyrði það í dag að hún stæðist ekki lög um kjörgengi. Og, svo það sé á hreinu, er lögmaðurinn sem skrifaði þetta mjög hæfur, mjög hæfileikaríkur lögfræðingur. Ég hef ekki hugmynd um hvort þetta er rétt,“ sagði Trump. 

„Ég hefði gert ráð fyrir að demókratar hefðu kannað það áður en hún var valin sem varaforsetaefni,“ bætti Trump við. „En þetta er mjög alvarlegt - þú segir þetta - þau segja að hún sé ekki kjörgeng þar sem hún er ekki fædd í þessu landi.“

Fréttamaðurinn svaraði því til að Harris væri fædd í Bandaríkjunum en foreldrar hennar hafi jafnvel ekki verið komin með varanlegt dvalarleyfi á þeim tíma. 

Trump vísaði í svari sínu til skoðanagreinar sem lagaprófessor skrifar í Newsweek þar sem hann heldur því ranglega fram að öldungadeildarþingmaður Kaliforníu sé ekki kjörgengur til að gegna embætti varaforseta eða forsta vegna stöðu foreldra hennar sem innflytjendur á þeim tíma sem Harris fæðist.

Trump hélt á sínum tíma á lofti lygum um að Obama væri ekki fæddur í Bandaríkjunum en þurfti síðar að leiðrétta þetta í kosningabaráttunni 2016.

Í grein  John Eastman, prófessors í lögum við Chapman-háskóla, segir hann að ýmsir „fréttaskýrendur“ segðu Harris ekki kjörgenga þar sem hún sé ekki innlend þar sem foreldrar hennar hafi ekki verið bandarískir ríkisborgarar þegar hún fæddist. Samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna eru allir þeir sem eru innlendir bandarískir ríkisborgarar eldri en 35 ára kjörgengir þegar kemur að vali á forseta eða varaforseta landsins. 

Erwin Chemerinsky, sem er sérfræðingur í stjórnskipunarrétti, segir í viðtali við CBS News að þetta sé svo sannarlega heimskulegt umræðuefni enda komi það fram í 1. og 14. grein stjórnarskráarinnar að allir þeir sem eru fæddir í Bandaríkjunum séu bandarískir þegnar. Þetta hafi verið staðfest í hæstarétti allt frá 1890. 

Laurence H. Tribe, prófessor í stjórnskipunarrétti við Harvard Law School, segir í samtali við  New York Times að hugmyndir Eastman séu hrein og klár þvæla. „Ég hefði helst ekki viljað tjá mig um þessi ummæli vegna þess að þetta er svo heimskuleg kenning,“ segir Tribe. „Það er ekkert hæft í þessu.“

Frétt New York Times

Frétt BBC

Newsweek

CBS News

Washington Post

Staðreyndavakt AP

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert