Eitrað fyrir Navalní?

Alexei Navalní.
Alexei Navalní. AFP

Einn helsti gagn­rýn­andi stjórn­valda í Rússlandi, Al­ex­ei Navalní, liggur milli heims og helju, rænulaus á gjörgæsludeild, eftir að eitrað var fyrir honum að sögn talskonu hans. 

Kira Jarmish segir að Navalní hafi verið í flugvél á leið frá Síberíu til Moskvu þegar hann veiktist skyndilega. Var flugvélinni lent skömmu síðar og honum komið á sjúkrahús.

Jarmish segir í viðtali við vinsæla útvarpsstöð að hún sé sannfærð um að eitrað hafi verið fyrir honum vísvitandi. Hún segir á Twitter að eitrað hafi verið fyrir Alexei og hann sé á gjörgæsludeild.

Navalní er á gjörgæsludeild fyrir eiturefnasjúklinga í Omsk og segir yfirmaður sjúkrahússins, Alexander Murakhovskí, í viðtali við TASS að ástand hans sé mjög alvarlegt.

„Alexei er enn meðvitundarlaus. Þeir hafa tengt hann við öndunarvél og lögregla er komin á staðinn að okkar beiðni,“ bætir Jarmísh við á Twitter. 

„Við teljum að eitrað hafi verið fyrir Alexei með einhverju sem blandað var í teið hans. Það er það eina sem hann drakk um morguninn,“ skrifar hún. Læknar hafi sagt að eitrið hafi skilað sér hratt í gegnum heitan drykkinn. 

Rússneska lögreglan gerði húsleit á skrifstofum Alexei Navalnís í síðasta …
Rússneska lögreglan gerði húsleit á skrifstofum Alexei Navalnís í síðasta mánuði. AFP

Navalní, sem er 44 ára, er þekktur fyrir baráttu gegn spillingu í efstu lögum stjórnsýslunnar í Rússlandi og hefur ekki farið leynt með gagnrýni sína á Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Ítrekað hefur verið ráðist á Navalní og hann fangelsaður í gegnum tíðina.

Til að mynda var sótthreinsivökva kastað í andlit hans árið 2017 og brenndust augu hans. Í ágúst í fyrra afmyndaðist andlit Navalnís þegar hann var í haldi lögreglu fyrir að hafa tekið þátt í mótmælum. Mynduðust sár og bólgur í andliti hans og sögðu læknar að um ofnæmisviðbrögð væri að ræða en Navalní óskaði eftir því að rannsakað yrði hvort um eitrun hefði verið að ræða. 

Jarmish segir í útvarpsviðtalinu að á þeim tíma hafi verið eitrað fyrir honum á lögreglustöð og hún sé sannfærð um að nú hafi eitri verið komið fyrir í tei hans. Ekkert hafi amað að honum þegar hún hitti hann á leið út á flugvöll í Tomsk í Síberíu. „Hann drakk aðeins svart te á flugvellinum,“ segir hún. „Strax eftir flugtak missti hann meðvitund.“

Navalní, sem er menntaður lögfræðingur frá Yale-háskóla, komst fyrst í heims­frétt­irn­ar fyr­ir að standa fyr­ir mót­mæla­fund­um árin 2011 og 2012 gegn end­ur­komu Pútíns í Kreml. Navalní hlaut næst­flest at­kvæði í kosn­ingu til borg­ar­stjóra Moskvu árið 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert