Kallaði mótmælendurna „rottur“

Þyrla forsetans á flugi.
Þyrla forsetans á flugi. AFP

Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, flaug á þyrlu yfir svæðið þar sem tugþúsundir mótmælenda kröfðust afsagnar hans. Kallaði hann mótmælendurna „rottur“.

Í myndbandi sem forsetaembættið sendi frá sér sést Lúkasjenkó með sjálfvirkan riffil í hendi og í skotheldu vesti er þyrlan lendir við forsetabústaðinn.

„Þeir flúðu eins og rottur,“ sagði Lúkasjenkó í myndbandinu sem var tekið á meðan á þyrlufluginu stóð þegar mótmælunum hafði linnt að mestu leyti. Með forsetanum í för var sonur hans Nikolai sem er fimmtán ára.

Maður klæddur hvítrússneska fánanum stendur fyrir framan óeirðalögregluna.
Maður klæddur hvítrússneska fánanum stendur fyrir framan óeirðalögregluna. AFP

Lúkasjenkó hefur áður fyrirskipað óeirðalögreglunni að tvístra mótmælendum í sundur en í kvöld virðist sem mótmælendurnir hafi hætt sjálfviljugir enda rigning úti. Engin átök urðu við lögregluna.

Mótmælin hófust eftir að Lúkasjenkó sagðist hafa unnið forsetakosningarnar fyrir tveimur vikum með 80 prósentum atkvæða. Stjórnarandstaðan segir að brögð hafi verið í tafli.

Tugir þúsunda mótmælenda söfnuðust saman í höfuðborginni Minsk.
Tugir þúsunda mótmælenda söfnuðust saman í höfuðborginni Minsk. AFP

Með tvær kröfur 

„Við erum bara með tvær kröfur: sanngjarnar kosningar og stöðvum ofbeldið,“ sagði Igor, einn mótmælendanna við AFP-fréttastofuna.

Stjórnvöld höfðu varað Hvít-Rússa við því að taka þátt í „ólöglegum mótmælum“ og fjölmiðlar birtu myndir sem sýndu óeirðalögregluna með skildi á leið í átt að Sjálfstæðistorginu í höfuðborginni Minsk.

Varnarmálaráðuneytið sagðist ætla að grípa inn í ef þörf krefði til verndar „heilögum“ minnisvörðum vegna síðari heimsstyrjaldarinnar. Þó nokkrum neðanjarðarlestarstöðvum í Minsk var jafnframt lokað.

Alexander Lúkajsenkó í síðustu viku.
Alexander Lúkajsenkó í síðustu viku. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert