Mynda mannlega keðju sem tákn um samstöðu

Tugþúsundir mótmælenda hafa safnast saman í Minsk í Hvíta-Rússlandi í dag. Mótmælendur krefjast afsagnar Alexanders Lúkasjenkós forseta, en mótmæli hafa staðið yfir í Hvíta-Rússlandi í meira en tvær vikur. 

Til stendur að mynda mannlega keðju frá Vilníus í Litháen að landamærum Hvíta-Rússlands, en slík keðja var einnig gerð fyrir 31 ári í Eystrasaltsríkjunum þremur, þegar sjálfstæðisbarátta þeirra stóð sem hæst. 

Mótmælendur safnast saman í Minsk í dag.
Mótmælendur safnast saman í Minsk í dag. AFP

Lúkasjenkó hefur verið forseti Hvíta-Rússlands frá árinu 1994, en endurkjöri hans hefur verið mótmælt og niðurstöður kosninganna, sem sýndu Lúkasjenkó fá 80% atkvæða, sagðar vera falsaðar. 

Lúkasjenkó hefur fyrirskipað bæði óeirðarlögreglu og her landsins að vera undir átök búin. Mótmælendur segjast aðeins krefjast heiðarlegra kosninga og að ofbeldi gegn mótmælendum verði hætt.

AFP

Evrópusambandið viðurkennir ekki niðurstöður nýafstaðinna kosninga. Yfir 7.000 mótmælendur hafa verið handteknir og frásögnum af pyntingum og ofbeldi í varðhaldi verið dreift á samfélagsmiðlum.

Lúkasjenkó, stundum kallaður „síðasti einræðisherra Evrópu“, hefur hundsað ákall um afsögn sína og nýjar kosningar og fyrirskipað lögreglu og her að kveða niður mótmælin og vakta landamærin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert