Samþykkja notkun blóðvökva gegn veirunni

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Bandarísk yfirvöld hafa veitt neyðarsamþykki fyrir notkun blóðvökva úr þeim sem hafa jafnað sig á kórónuveirunni sem meðferð gegn COVID-19.

Alls hafa yfir 176 þúsund manns látist af völdum veirunnar í Bandaríkjunum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti er undir miklum þrýstingi um að stöðva útbreiðslu veirunnar í landinu en stutt er í forsetakosningarnar sem verða í nóvember.

Talið er að kröftug mótefni séu að finna í blóðvökvanum sem geti hjálpað við að vinna hraðar bug á sjúkdómnum og til að koma í veg fyrir að fólk veikist alvarlega af hans völdum.

Háskólanemar í New York bíða eftir því að komast í …
Háskólanemar í New York bíða eftir því að komast í skimun. AFP

Efasemdaraddir eru uppi 

Notast hefur verið við meðferðina í Bandaríkjunum og í öðrum löndum. Enn er þó tekist á um hversu mikið gagn hún gerir. Sumir sérfræðingar hafa varað við mögulegum aukaverkunum.

„Notkun blóðvökva virkar líklega, þótt enn eigi eftir að færa á það sönnur með rannsóknum, en ekki sem meðferð til bjargar sjúklingum sem eru þegar orðnir alvarlega veikir,“ sagði Len Horovitz, lungnasérfræðingur við Lenox Hill-spítalann í New York-borg.

Hann sagði að blóðvökvinn muni líklega virka mun betur strax eftir að manneskja hefur smitast af veirunni, þegar líkaminn er að reyna að stöðva sýkinguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert