Ætlaði að gera þriðju árásina

Maður sem drap 51 manneskju í tveimur moskum á Nýja-Sjálandi í fyrra ætlaði sér að ráðast til atlögu í þriðju moskunni en hann ætlaði að brenna þær allar til grunna og drepa eins marga og hann mögulega gæti.

Þetta kom fram á fyrsta degi réttarhaldanna yfir Ástralanum Brenton Tarrant í dag. Hann hefur játað að hafa framið 51 morð, 40 morðtilraunir og hryðjuverk. Hann á yfir höfði sér lífstíðardóm, jafnvel án möguleika á reynslulausn, refsing sem hefur aldrei áður verið dæmd á Nýja-Sjálandi áður. 

Hryðjuverkaárásin var framin í borginni Christchurch 15. mars í fyrra. Árásarmaðurinn streymdi beint frá voðaverkunum og áður en slökkt var á útsendingunni mátti sjá hann skjóta fólk til bana. 

Árásarmaðurinn ók fyrst að Al Noor-moskunni og skaut þar á fólk sem var við föstudagsbænir. Þaðan ók hann að Linwood-moskunni og drap þar fleiri. 

Réttarhöldin hófust í dag og munu standa í fjóra daga í Christchurch. Vegna kórónuveirunnar er réttarsalurinn nánast auður en hundruð fylgjast með í gegnum myndbúnað frá réttarsalnum.

Nokkrir þeirra sem lifðu árásirnar af voru viðstaddir og báru vitni fyrir framan fjöldamorðingjann. „Ég get ekki fyrirgefið þér,“ segir Maysoon Salama, en sonur hennar, Atta Elayyan, var drepinn. Salama sagðir gjörðir árásarmannsins ófyrirgefanlegar, að hann hefði sjálfur veitt sér heimild til þess að taka af lífi fólk sem hafði ekki brotið neitt af sér. Eina ástæðan var trúarskoðun þess – að vera múslímar. 

„Þú hélst að þú gætir brotið okkur en þér mistókst herfilega,“ bætti Salama við og það eina sem árásin hefði skilað væri að þau væru enn tryggari trú sinni og að ástvinir þeirra væru orðnir að píslarvottum. Fleiri tóku í svipaðan streng og þökkuðu árásarmanninum fyrir að hafa sameinað samfélag múslíma enn betur. 

Frétt BBC

AFP
Ástralski hryðjuverkamaðurinn Brenton Tarrant.
Ástralski hryðjuverkamaðurinn Brenton Tarrant. AFP
mbl.is