Leyniþjónustan hafi njósnað um danska þegna í 6 ár

Leyniþjónusta danska hersins FE, er sögð hafa njósnað um danska …
Leyniþjónusta danska hersins FE, er sögð hafa njósnað um danska þegna í fleiri ár. mbl.is/Sigurður Bogi

Lars Findsen, forstjóra leyniþjónustu danska hersins FE (d. Forsvarets Efterretningstjeneste), hefur verið vikið úr starfi eftir að í ljós kom að leyniþjónustan hafi mögulega brotið lög í mörg ár og afvegaleitt stofnun sem hefur eftirlit með henni.

Findsen og tveimur öðrum starfsmönnum hefur verið vikið tímabundið úr starfi á meðan rannsókn fer fram. BBC greinir frá og vísar í umfjöllun Politiken þar sem leyniþjónustan er sögð hafa njósnað um danska þegna síðastliðin sex ár og að uppljóstrarar hafi leyst frá skjóðunni.

Einnig er greint frá því að leyniþjónustan hafi látið hjá líða að rannsaka ásakanir um njósnastarfsemi innan danska hersins. Þá er hún sökuð um að hafa safnað upplýsingum um danska þegna og deilt þeim.

Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, sagði að rannsókn væri hafin og að málið verði skoðað af “fyllstu alvöru.”

„Það er mikilvægt að ég leggi áherslu á að baráttunni gegn ógnum við þjóðaröryggi verður ekki hætt á meðan rannsóknin fer fram,“ sagði Bramsen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert