Ósannað að blóðvökvameðferð virki

Kassi með blóðsýnum COVID-19 sjúklinga sem notaður var til að …
Kassi með blóðsýnum COVID-19 sjúklinga sem notaður var til að kanna árangur blóðvökvameðferðar við sjúkdómnum. AFP

Sérfræðingar efast um gagnsemi þess að meðhöndla COVID-19 sjúklinga með blóðvökva úr fólki sem hefur greinst með kórónuveiruna og náð bata. Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær um neyðarsamþykki yfirvalda fyrir slíkri meðferð. 

Soumya Swaminathan, einn helstu vísindamanna Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, ítrekaði í dag að það væri enn ósannað að um væri að ræða örugga og áhrifaríka meðferð og mjög lítið af gögnum styddu að hún skilaði árangri.  

„Það er nokkuð um klínískar rannsóknir sem nú eru í gangi á blóðvökva en aðeins fáar þeirra hafa kunngjört niðurstöður sínar og niðurstöðurnar eru ekki óyggjandi. Rannsóknirnar hafa verið gerðar á tiltölulega litlum hópum,“ sagði Swaminathan í dag. 

Getur valdið lungnavanda

Hún sagði að einhverjar rannsóknir hafi bent til nokkurs ávinnings en það væri þó ekki hægt að treysta á þær. 

„Við höfum fylgst með þessu til að sjá hvort sönnunargögn [um nytsemi blóðvökvameðferðar] séu að breytast en eins og er er lítið um að rannsóknir sanni gagnsemi meðferðarinnar.“

Þá varaði Bruce Aylward, yfirráðgjafi forstjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, við því að aukaverkanir blóðvökvameðferðar gætu verið allt frá vægum kuldahrolli til alvarlegs lungnavanda.

Lifandi streymi Guardian vegna COVID-19

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert