Greta Thunberg farin aftur í skólann

Greta Thunberg er upphafsmanneskja svonefndra skólaverkfalla.
Greta Thunberg er upphafsmanneskja svonefndra skólaverkfalla. AFP

Greta Thunberg er mætt í skólann að nýju eftir að hafa barist gegn loftslagsvánni undanfarið ár. Thunberg, sem er 17 ára gömul, hefur ekki mætt í skólann síðan skólaárinu lauk í júní í fyrra. 

Hún skrifar á Twitter að það sé frábært að vera lokins mætt í skólann að nýju og með fylgir mynd af henni á reiðhjóli með skólatösku á bakinu. Ekki kemur fram í færslunni í hvaða skóla hún gengur í.

 Hún er að hefja nám í framhaldsskóla og þegar hún lauk grunnskólanámi fyrir rúmu ári ákvað hún að sigla yfir Atlandshafið til að vekja athygli á kolefnislosun flugs. Til stóð að hún flytti erindi á COP25 ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í höfuðborg Chile, Santiago. En vegna óeirða í Chile var ráðstefnan flutt til Madrid þannig að Thunberg varð að sigla frá Ameríku til Evrópu. 

Á meðan Thunberg var í Bandaríkjunum fór hún á fund heimsleiðtoganna hjá SÞ, fundaði oftar en einu sinni með fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, og ferðaðist síðan Bandaríkin þver og endilöng á Tesla rafmagnsbíl sem fyrrverandi ríkisstjóri Kaliforníu, Arnold Schwarzenegger, lánaði henni að því er segir í frétt Guardian.

mbl.is