Bænir fremur en ofbeldi

Móðir svarts manns sem var skotinn í bakið af lögreglumanni í Wisconsin hvetur fólk til þess að sýna stillingu. „Við þurfum miklu frekar á bænum að halda,“ segir Julia Jackson um son sinn, Jacob Blake, en lögmaður hennar segir að það þurfi kraftaverk til að sonur hennar geti gengið á ný.

Julia Jackson biðlar til mótmælenda um að sýna stillingu en á sunnudags- og mánudagskvöld kom til átaka á milli mótmælenda og lögreglu í kjölfar þess að lögreglan skaut Blake ítrekað af stuttu færi í borginni Kenosha þar sem hann var að fara inn í bíl ásamt þremur börnum sínum síðdegis á sunnudag.

Hundruð mótmælenda komu saman í miðborg Kenosha í gærkvöldi og eins kom saman lítill hópur þungvopnaðra hvítra karla sem ætluðu að verja eignir sínar. Til átaka kom á milli fámenns hóps mótmælenda sem köstuðu flugeldum að lögreglu sem svaraði með því að skjóta gúmmíkúlum að mótmælendum. Flestir þeirra sem hafa tekið þátt í mótmælunum undanfarið hafa mótmælt friðsamlega en alla þrjá dagana hafa fámennir hópar stundað gripdeildir og unnið skemmdarverk á lausamunum og fasteignum. 

Jackson hvetur til friðsamlegra aðgerða og segir að þær skemmdir sem hafa verið unnar séu svo sannarlega ekki í nafni sonar síns né fjölskyldu. Hún biður fólk að fordæma rasisma enda skipti hörundslitur ekki máli. Fjölbreytni sé af hinu góða. „Guð skapaði ekki eina tegund trjáa, blóma eða fiska, hesta, grass eða grjóts. Hvernig vogið þið ykkur að ætlast til þess að hann hafi skapað eina tegund manneskju sem lítur út alveg eins og þið?“

Að sögn lögmanna fjölskyldunnar skemmdi ein byssukúla lögreglumannsins mænu Blakes en hinar hæfðu og skmmdu fleiri líffæri, svo sem maga, ristil, lifur og handlegg.  Mannréttindalögfræðingurinn Benjamin Crump segir að það þurfi kraftaverk til þess að Jacob Blake muni ganga að nýju. 

Móðir Blakes segist biðja fyrir lögreglunni en faðir hans, Jacob eldri, sakar lögregluna um alvarlega manndrápstilraun. 

„Þeir skutu son minn sjö sinnum líkt og hann skipti engu máli,“ segir Blake. „En sonur minn skiptir máli. Hann er manneskja.“

Letetra Widman, systir Jacobs Blakes, segist ekki vilja sjá meðaumkun heldur breytingar. Lögreglan hefur ekki enn tjáð sig um atvikið en á myndskeiði sem vitni tók sést hvar lögreglumaður skýtur Blake sjö sinnum á sama tíma og hann heldur í bol hans. Crump segir að börn Blakes muni aldrei jafna sig andlega á því áfalli sem þau urðu fyrir.

Að sögn Crumps hafði eitt þeirra verið að halda upp á átta ára afmæli sitt þennan dag. „Getið þið ímyndað ykkur hvað kemur upp í huga hans á hverjum afmælisdegi?“

Það eina sem hefur komið fram frá lögreglustjóraembætti borgarinnar er að lögreglan hafi verið kölluð á staðinn vegna ófriðar á heimili en ekki hvers vegna lögreglumennirnir tveir hafi dregið upp byssur sínar. Blake var óvopnaður.

Crump, sem einnig er verjandi fjölskyldu George Floyds og fleiri svartra einstaklinga sem hafa verið drepnir eða særðir af lögreglu, krefst þess að lögreglumennirnir verði reknir úr starfi og ákærðir. Þeir voru strax á sunnudagskvöldið sendir í tímabundið leyfi frá störfum á meðan rannsókn stendur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert