Lýðræðissinnaðir þingmenn handteknir í Hong Kong

Lam Cheuk-ting mótmælir á þingi sjálfstjórnarsvæðisins 16. október 2019.
Lam Cheuk-ting mótmælir á þingi sjálfstjórnarsvæðisins 16. október 2019. AFP

Tveir lýðræðissinnaðir þingmenn stjórnarandstöðunnar í Hong Kong eru á meðal 16 einstaklinga sem hafa verið handteknir vegna mótmæla gegn stjórnvöldum sjálfstjórnarsvæðisins. 

Lam Cheuk-ting og Ted Hui Chi-fung, sem tilheyra lýðræðisflokknum, voru handteknir á heimili sínu á miðvikudagsmorgun. 

Lam er sakaður um óeirðir vegna atviks sem átti sér stað í júlí 2019 þegar grímuklæddur maður réðst að mótmælenda. Lam var á meðal fjölmargra sem slösuðust í mótmælunum á síðasta ári. 

Heimildir BBC herma að alls hafi 16 einstaklingar verið handteknir í morgun, þeirra á meðal þingmennirnir tveir. 

Þingmaðurinn Ted Hui.
Þingmaðurinn Ted Hui. AFP

Facebook-síður þingmannanna tveggja, sem hafa báðir verið gagnrýnir á stjórnvöld í Peking opinberlega, staðfestu handtökurnar í morgun. Talsmaður Lam sagði í færslu á samfélagsmiðlum að Lam hafi verið sakaður um óeirðir við Yuen-Long lestarstöðina 21. júlí á síðasta ári og að hafa haft samráð um að eyðileggja opinberar fasteignir 6. júlí 2019.

Talsmaður Hui segir að hann sé sakaður um að hafa reynt að hindra framgang réttlætisins og að hafa haft aðgang að fartölvu með óheiðarlegu efni 6. júlí í fyrra. 

Tvær vikur eru síðan fjölmiðlarisinn Jimmy Lai var handtekinn, en hann hefur verið gagnrýninn á yfirvöld í Peking. Handtökurnar hafa verið framkvæmdar á grundvelli nýrra öryggislaga sem kveða á um bann við uppreisnaráróðri, landráðum og sjálfstæðisumleitunum sjálfstjórnarhéraðsins, auk þess sem málfrelsi og réttur til að mótmæla eru verulega skert með lögunum sem samþykkt voru í byrjun júlí. 

Níu aðrir voru handteknir sama dag og Lai, þeirra meðal baráttukonan Agnes Chow. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert