Mun aldrei ganga laus að nýju

Ástralski vígamaðurinn Brenton Tarrant var dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á náðun í dag fyrir fjöldamorðin í tveimur nýsjálenskum moskum í mars 2019. Dómarinn sagði þegar hann kvað upp dóminn að verknaðurinn væri af hinu illa og ómennskur.

Þegar niðurstaðan lá fyrir heyrðust fagnaðarlæti fyrir utan réttarsalinn þar sem fjölmenni fagnaði og söng þjóðsönginn: God Defend New Zealand.

Brenton Tarrant sést hér hlýða á dómarann.
Brenton Tarrant sést hér hlýða á dómarann. AFP

Tarrant var dæmdur fyrir 51 morð, 40 morðtilraunir og hryðjuverk. Cameron Mander sem dæmdi í málinu sagði brenglaða hugmyndafræði og hatur hafa fengið Ástralann, sem trúir á yfirburði hvíta kynstofnsins, til að myrða varnarlausa karla, konur og börn. 

„Aðgerðir þínar eru ómannlegar“

„Glæpir þínir eru svo illir að jafnvel það að þú verðir í haldi þangað til þú deyrð mun ekki uppfylla kröfur um refsingu og fordæmingu,“ sagði Mander þegar hann las upp þyngstu refsingu sem nokkrum hefur verið gerð í Nýja-Sjálandi.

Dómarinn las upp nöfn allra þeirra sem voru drepnir í árásinni sem Tarrant streymdi sjálfur beint af vettvangi. Hann lýsti því nákvæmlega hvernig Tarrant tók særða af lífi þegar þeir báðu um hjálp 15. mars í fyrra. 

„Það var hrottafengið og kaldrifjað. Aðgerðir þínar eru ómannlegar,“ sagði dómarinn og vísaði til þess að Tarrant hafi vísvitandi valið að fremja hryðjuverkin þegar sem flestir væru í moskunum – við föstudagsbænir – til að tryggja að mannfallið yrði sem mest.

AFP

Tarrant, sem er 29 ára gamall, afþakkaði að ávarpa réttinn í gær og sat svipbrigðalaus í réttarsalnum í dag líkt og hann hefur gert undanfarna daga. Jafnvel á meðan ættingjar og fórnarlömb lýstu harmi sínum og illvirkjum hans.

Þurfi aldrei að heyra nafn hans að nýju

Gamal Fouda, sem er klerkur (imam) við Al Noor-moskuna segir að dómsniðurstaðan sé í samræmi við óskir múslima. Hann er einn þeirra sem varð fyrir árásinni. „En engin refsing mun færa ástvini okkar til baka og sorg mun hrjá okkur það sem eftir lifir ævinnar,“ segir hann.

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, fagnaði dómsniðurstöðunni. Hún segist vonast til þess að Nýsjálendingar þurfi aldrei aftur að heyra nafn hryðjuverkamannsins en sálrænt áfall þjóðarinnar vegna 15. mars læknist ekki auðveldlega. „Hann verðskuldar að vera í algjörri þögn það sem eftir er ævinnar,“ segir hún. 

AFP

Í svipaðan streng tekur forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, sem þakkar fyrir að heimurinn þurfi aldrei að sjá né heyra Tarrant að nýju.

Talið er að Tarrant afpláni í því fangelsi Nýja-Sjálands þar sem hámarksöryggis er gætt.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina