Blake sagður handjárnaður við spítalarúmið

Frá mótmælum gegn lögregluofbeldi í bandarísku borginni Kenosha.
Frá mótmælum gegn lögregluofbeldi í bandarísku borginni Kenosha. AFP

Jacob Blake, bandarískur karlmaður sem var skot­inn sjö sinn­um í bakið af lög­reglu­manni í Wiscons­in­ríki á sunnu­dag og dvelur nú á sjúkrahúsi, er handjárnaður við rúmið sitt, að sögn fjölskyldu Blakes. 

Frændi Blakes tjáði CNN að faðir hans hefði heimsótt son sinn á spítala þar sem hann liggur nú og jafnar sig eftir í það minnsta eina aðgerð. Faðirinn upplifði mikla sorg þegar hann sá að sonur hans var handjárnaður við rúmið. 

„Þetta er móðgun við meiðsli hans,“ sagði Justin Blake, frændi Jacobs Blakes, í samtali við CNN. „Hann er lamaður og getur ekki gengið og þeir handjárnuðu hann við rúmið, hvers vegna?“

„Pabbi, hvers vegna skutu þeir mig svo oft?“

Jacob Blake er 29 ára gamall svartur karlmaður og er árás lögreglu sögð sprottin af rasisma. Lögreglumaður skaut hann sjö sinnum í bakið þegar lögregla reyndi að handtaka hann, að sögn rannsóknarlögreglumanns. Blake hefur dvalið á sjúkrahúsi síðan þá. 

Lögreglan í borginni Kenosha í Wisconsin, þar sem Blake dvelur á sjúkrahúsi, hefur ekki svarað spurningum CNN um málið. Talsmaður spítalans vísaði spurningum fréttastofunnar annað. 

Andrew Yang, fyrrverandi forsetaframbjóðandi demókrata og heimildamaður CNN, sagði í samtali við CNN í gær að hann hefði rætt við föður Blakes. Hann hefði verið glaður að sjá að sonur hans væri með meðvitund en reiður yfir því að hann væri handjárnaður. 

„Hann sagði að það væri búið að festa hann við rúmið,“ sagði Yang blaðamanni CNN. Yang ræddi einnig við föðurinn eftir skotárás lögreglu. Þá sagði faðirinn að Blake hefði spurt sig hvers vegna hann hefði verið skotinn svo oft. 

Ríkisstjórinn skilur ekki handjárnunina

„Þegar ég spurði hvaða skilaboðum hann vildi koma á framfæri sagði faðirinn: Segðu þeim að sonur minn sé manneskja,“ sagði Yang. 

Ríkisstjórinn í Wisconsin sagði á blaðamannafundi að hann gæti ekki ímyndað sér hvers vegna Blake væri handjárnaður. „Ég hef engan skilning á því hvers vegna það var talið nauðsynlegt,“ sagði ríkisstjórinn, Tony Evers, aðspurður. „Við ættum að geta hjálpað honum að ná sér með betri aðferðum. Þetta virðist ekki vera góð aðferð,“ bætti Evers við.

Mikil mótmæli kviknuðu í kjölfar skotárásar lögreglu. Þau standa enn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert