Táragas og fjöldahandtökur í Ósló

Mótmæli gegn samkomu SIAN hófust friðsamlega í dag en þegar …
Mótmæli gegn samkomu SIAN hófust friðsamlega í dag en þegar Fanny Bråten, talsmanneskja samtakanna, steig í pontu og tók að rífa síður úr Kóraninum og hrækja á þær ætlaði allt um koll að keyra og beitti lögregla táragasi auk þess að handtaka 29 manns. AFP

Tæplega 30 manns gista fangageymslur í Ósló í Noregi eftir að til snarpra átaka kom við Stórþingið í dag á samkomu samtakanna SIAN, eða Stop islamisering av Norge, en eins og nafnið gefur til kynna berjast samtökin gegn því sem þau kalla „íslam-væðingu“ (n. islamisering) Noregs.

Mörg hundruð manns komu saman til að mótmæla samkomu SIAN og framkalla eins mikinn hávaða og unnt væri til að yfirgnæfa málflutning ræðumanna samtakanna en fyrir viku kom til mjög harðra átaka við samkomu SIAN í Bergen þegar þrír menn veittust að Lars Thorsen, formanni samtakanna, og slógu hann niður.

Fanny Bråten hrækir á síðu úr Kóraninum áður en hún …
Fanny Bråten hrækir á síðu úr Kóraninum áður en hún grýtir henni frá sér. Er þarna var komið sögu tók mótmælendum að hitna verulega í hamsi. Skjáskot/VGTV

Alls voru 15 manns handteknir í Bergen og þurfti lögregla með skildi og annan óeirðabúnað að slá hring um lögreglustöð borgarinnar og verja hana þegar tugir mótmælenda sóttu að stöðinni eftir að þremenningarnir voru handteknir.

Svipað ástand kom upp í höfuðborginni í dag. Lögregla hafði sett upp girðingar umhverfis ræðustól SIAN en þegar ein af forvígismanneskjum samtakanna, Fanny Bråten, steig í pontu og hóf mál sitt ætlaði allt um koll að keyra. Málflutningur Bråten var ekki langur, hún sagði einfaldlega „Nú skal ég sýna ykkur hvernig ég lítilsvirði Kóraninn,“ og hóf í kjölfarið að rífa blaðsíður úr Kóraninum, helgiriti múslima, hrækja á þær og grýta þeim frá sér.

Viðstaddir lyftu upp öryggisgirðingu og tóku að grýta flöskum og …
Viðstaddir lyftu upp öryggisgirðingu og tóku að grýta flöskum og öðru lauslega auk þess að kveikja í fatnaði. Skjáskot/VGTV

Tóku mótmælendur nú að lyfta girðingunum og klifra gegnum þær og tókst einum þeirra að komast að Bråten og sparka hana niður. Kom þá til töluverðra átaka við þingið og í nágrenni þess og beitti lögregla svokölluðu CS-gasi, eða táragasi, sem fátítt er í Noregi, til að dreifa mannskapnum.

Hópur fólks réðst þá að brynvörðum óeirðabifreiðum lögreglu og grýtti ýmsu lauslegu að þeim, svo sem flöskum, járnstöngum og jafnvel húsgögnum af veitingastöðum í nágrenninu.

Maður grýtir borði af veitingastað í nágrenninu í eina af …
Maður grýtir borði af veitingastað í nágrenninu í eina af óeirðabifreiðum Óslóarlögreglunnar í kjölfar mótmælanna. Skjáskot/VGTV

Torgeir Brenden, aðgerðastjóri lögreglunnar, segir í viðtali við dagblaðið Aftenposten að atgangurinn í kjölfar sjálfra mótmælanna hafi ekki haft neitt með mótmælin að gera heldur hafi þar verið um hreinar óspektir að ræða, „rene pøbelstreker“ eins og hann kallaði það. Var hann þá spurður út í hvort nauðsynlegt hefði verið að grípa til táragass, sem hefur mun öflugri ertandi áhrif en hinn hefðbundni piparúði, og kvað já við, þar sem aðrir varnarmöguleikar lögreglu hefðu falið í sér mun harðari aðgerðir.

Hjálmklæddir lögreglumenn á vettvangi í miðbæ Óslóar við mótmælin gegn …
Hjálmklæddir lögreglumenn á vettvangi í miðbæ Óslóar við mótmælin gegn SIAN-samtökunum í dag. AFP

Norski menningarmálaráðherrann Abid Raja hafði fyrir mótmælin hvatt fólk til að mæta ekki til samkomu SIAN. „Gefið skít í SIAN og haldið ykkur heima! Með því að mæta og sýna fyrirlitningu ýtið þið undir SIAN. Með því að mæta ekki afklæðið þið samtökin,“ hafði dagblaðið VG eftir ráðherranum.

NRK

VG

Aftenposten

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert