Fordæma hegðun mótmælenda

Ríkisstjórn Þýskalands fordæmir „óviðunandi“ hegðun mótmælenda í Berlín í gær er hundruð voru handtekin og einhverjir reyndu að brjóta sér leið inn í þinghúsið (Reichstag).

Reichstag er táknmynd lýðræðis okkar,“ segir innanríkisráðherra Þýskalands, Horst Seehofer, í viðtali við Bild í dag. „Það er óviðunandi að sjá öfgamenn og vandræðagemsa notfæra sér það í eigin þágu,“ segir Seehofer en sóttvarnareglum var mótmælt í Berlín og víðar í gær.

Að sögn lögreglu komu 38 þúsund manns saman í miðborg Berlínar í gær til að mótmæla hertum sóttvarnareglum vegna kórónuveirunnar. Til að mynda þarf fólk að bera grímu og gæta að fjarlægðarmörkum. Miklu fleiri mættu á mótmælin en búist hafði verið við. 

Í gærkvöldi brutust nokkur hundruð mótmælendur í gegnum varnir lögreglu og voru komnir að inngangi þinghússins er lögregla náði að stöðva þá með því að beita piparúða og handtaka hluta þeirra. Alls voru 300 manns handteknir í miðborginni í gær, hluti þeirra við þinghúsið en aðrir við rússneska sendiráðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert