„Algjör upplausn“ um borð í flugi þar sem 16 smituðust

AFP

Farþegi um borð í flugvél sem flaug frá grísku eyjunni Zante til Cardiff í Wales síðastliðinn þriðjudag segir flugið hafa verið algjöra „upplausn“. Margir hafi ekki borið andlitsgrímu og hegðað sér óvarlega. 

Stephanie Whitfield, sem var um borð í vélinni, segir í samtali við BBC að flugið hafi verið fullt af „kóvitum“ (e. covidiots) og að starfsmenn vélarinnar gerðu ekkert til þess að tryggja að sóttvarnareglum væri fylgt. 

Að minnsta kosti 16 farþegar vélarinnar hafa greinst með kórónuveiruna og tæplega 200 manns eru í sóttkví. 

„Flugið var algjör upplausn. Maðurinn við hliðina á mér var með grímuna sína um hálsinn. Starfsfólk vélarinnar bað hann ekki að laga grímuna heldur þvert á móti bauð honum upp á frían drykk þegar hann sagðist þekkja einn starfsmanninn,“ segir Whitfield, en hún og maðurinn hennar eru nú í tveggja vikna sóttkví. „Fjöldi fólks var ekki með neina andlitsgrímu og gekk fram og aftur í vélinni til að ræða við aðra farþega,“ segir Whitfield.

„Um leið og vélin lenti tóku margir af sér grímuna um leið. Flugið var fullt af sjálfselskum kóvitum og óhæfum starfsmönnum sem gæti ekki hafa verið meira sama.“

Whitfield og eiginmaður hennar bíða bæði eftir niðurstöðu úr sýnatöku en þau finna bæði fyrir minniháttar einkennum veirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert