Lúkasjenkó á svörtum lista í Eystrasaltsríkjum

Lúkasjenskó að störfum.
Lúkasjenskó að störfum. AFP

Eistland, Lettland og Litháen hafa sett Alexander Lúkasjenkó, forseta Hvíta-Rússlands, og 29 aðra háttsetta embættismenn á svartan lista vegna meintra kosningasvika og harðra aðgerða gegn mótmælum lýðræðissinna.

Eystrasaltsríkin, sem eru öll í Evrópusambandinu, tilkynntu þetta til að sýna mótmælendum í Hvíta-Rússlandi stuðning sinn í verki. Mikill órói hefur verið í landinu síðan forsetakosningar fóru fram 9. ágúst.

„Við erum að senda skilaboð um að við þurfum að gera meira en gefa út tilkynningar. Við þurfum einnig að grípa til alvöruaðgerða,“ sagði Linas Linkevicius, utanríkisráðherra Litháens.

Linas Linkevicius, utanríkisráðherra Litháens.
Linas Linkevicius, utanríkisráðherra Litháens. AFP

Á meðal þeirra 29 embættismanna sem lenda á svörtum lista eru starfsmenn kosninganefndar og ráðuneyta. Að sögn Linkevicius gæti listinn lengst á næstunni.

Urmas Reinsalu, utanríkisráðherra Eistlands, sagði að Eystrasaltsríkin væru með aðgerðum sínum að „sýna að við erum að takast á við mannréttindabrot í Hvíta-Rússlandi af mikilli aflvöru“.

Evrópusambandið er einnig að íhuga ferðabann og frystingu eigna hjá um tuttugu hvítrússneskum embættismönnum en öll 27 ríki ESB þurfa að samþykkja listann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert