Áforma aðra kosningu um sjálfstæði

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra heimastjórnar Skotlands.
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra heimastjórnar Skotlands. AFP

Skoska þingið mun tilkynna drög að mögulegri dagsetningu og tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skota fyrir maí á næsta ári að því er fram kemur í tilkynningu Nicolu Sturgeon, forsætisráðherra heimastjórnar Skota, í dag, en dagskrá komandi þings í Skotlandi var tilkynnt í dag.

Þingkosningar eru í Skotlandi í maí á næsta ári og virðist Sturgeon vilja kynda undir sjálfstæðisþorsta landa sinna fyrir þingkosningarnar en skoski þjóðarflokkurinn (SNP) með Sturgeon í fararbroddi hefur um margra ára skeið reynt að fá sjálfstæði Skotlands undan Bretum framgengt.

Skotar kusu að vera áfram hluti af Bretlandi í kosningum sem klufu skosku þjóðina árið 2014. Kusu 55% að vera áfram undir bresku krúnunni en 45% vildu sjálfstæði.

Vill nýjar kosningar

„Fyrir lok þessa þings munu drög liggja fyrir að framkvæmd og tímasetningu nýrra kosninga um sjálfstæði Skotlands. Svo í aðdraganda kosninga þingsins um þau drög munum við sækja umboð skosku þjóðarinnar til þess að fara fram á fullt sjálfstæði frá Bretum.“ Þetta sagði Sturgeon á fyrsta degi nýs kjörtímabils í skoska þinginu í dag.

Nicola Sturgeon nýtur nú aukins fylgis vegna þess hve vel hefur tekist að halda aftur af útbreiðslu kórónuveirunnar í Skotlandi.

Þó eru allar líkur á því Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, muni beita sér fyrir því að Skotar fái ekki að ganga til kosninga að nýju um sjálfstæði landsins. Hins vegar mun þetta verða honum mikill hausverkur ef Sturgeon tekst að gera þingmenn í breska þinginu hlynnta því að Skotar fái að kjósa um sjálfstæði. Breska þingið verður að samþykkja beiðni Skotlands um þjóðaratkvæðagreiðslu.

mbl.is