Lyf gegn veirunni stenst ekki prófanir

Franski lyfjarisinn Sanofi er eitt þeirra fyrirtækja sem keppast um …
Franski lyfjarisinn Sanofi er eitt þeirra fyrirtækja sem keppast um að finna árangursríka meðferð við kórónuveirunni. AFP

Lyfið Kevzara, sem ætlað var að til notkunar við alvarlegum tilfellum COVID-19, stóðst ekki alþjóðlega þriðja stigs klíníska prófun.

Franska lyfjafyrirtækið Sanofi tilkynnti í dag að niðurstöður prófunarinnar, sem er venjulega sú síðasta áður en lyf er opinberlega samþykkt, hafi ekki veitt marktækar niðurstöður.

Hvorki Sanofi né samstarfsfélagi fyrirtækisins, bandaríska lyfjafyrirtækið Regeneron, reikna með frekari klínískum prófunum á lyfinu.

Jafnvel þótt við fengjum ekki þær niðurstöður sem við höfðum vonast eftir, sagði dr. John Reed í tilkynningu, erum við stolt af þeirri vinnu sem teymið okkar hefur unnið.

Úr verksmiðju Sanofi.
Úr verksmiðju Sanofi. AFP

Síðan kórónuveirufaraldurinn hófst í lok síðasta árs hafa meira en 800 þúsund manns dáið af völdum veirunnar og efnahagslegra áhrifa hennar gætir víða. Fjöldi þjóða og fyrirtækja keppist nú um að finna árangursríka meðferð við sjúkdómnum, sem og bóluefni.

Sanofi er eitt af þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem vinna nú að þróun bóluefnis, en vísindamenn hafa verið varkárir í spádómum sínum um hvenær megi búast við slíku bóluefni. Í besta falli gæti bóluefni verið tilbúið í lok þessa árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert