Telja að Rusesabagina hafi verið numinn á brott

Paul Rusesabagina er færður í fangelsi í Rúanda á mánudag.
Paul Rusesabagina er færður í fangelsi í Rúanda á mánudag. Ljósmynd/BBC

Dóttir Pauls Rusesabagina, sem varð heimsþekktur fyrir að fela hundruð tútsa á hóteli sínu í þjóðarmorðunum í Rúanda árið 1994, hefur kallað eftir hjálp til þess að tryggja að faðir hennar verði látinn laus úr haldi, en greint var frá því í gær að hann hefði verið handtekinn fyrir hryðjuverkastarfsemi. 

Fjölskylda Rusesabagina telur að hann hafi verið numinn á brott frá Dúbaí.

Rusesabagina hefur búið í útlegð síðustu ár og er bæði bandarískur og belgískur ríkisborgari. Hann er hvað þekktastur fyrir að vera innblástur óskarsverðlaunamyndarinnar Hótel Rúanda.  

Ruses­a­bag­ina, sem er 66 ára, stofnaði síðar stjórn­mála­flokk til höfuðs stjórn­ar­flokki Rú­anda sem hafði til umráða vopnaðar sveit­ir staðsett­ar í Kongó. Hann hefur gagnrýnt forseta Rúanda, Paul Kagame, ítrekað. 

Anaise Kanimba, dóttir Rusesabagina, hefur biðlað til belgískra og bandarískra stjórnvalda um aðstoð í máli föður síns. Hún telur að hann hafi verið numinn á brott frá Dúbaí þar sem honum hefði annars verið meinað að ferðast til Rúanda. Fjölskyldan heyrði síðast frá Rusesabagina á fimmtudag þegar hann lenti í Dúbaí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert