Facebook bannar pólitískar auglýsingar

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook.
Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook. AFP

Facebook ætlar að banna pólitískar auglýsingar vikuna fyrir bandarísku forsetakosningarnar.

Með þessu vill samfélagsmiðillinn vinsæli leggja sitt af mörkum gegn misvísandi upplýsingum í tengslum við kosningarnar.

Facebook hefur einnig heitið því að sannreyna allar snemmbúnar fullyrðingar um sigur. Ef frambjóðandi reynir að lýsa yfir sigri áður en búið er að telja öll atkvæði „bætum við merkingu við færsluna þeirra til að beina fólki í átt að opinberum niðurstöðum“, sagði forstjórinn Mark Zuckerberg í pósti sem hann sendi frá sér.

„Ég hef áhyggjur af þeim áskorunum sem fólk stendur frammi fyrir í kosningum. Vegna þess hve þjóð okkar er sundruð hef ég einnig áhyggjur. Kosningaúrslit geta tekið daga eða jafnvel vikur að koma í ljós og þá getur hættan á óeirðum aukist víðs vegar um landið,“ bætti hann við.

Demókratar hafa lengi varað við því að forsetinn Donald Trump og stuðningsmenn hans reyni að skapa ringulreið með því að senda frá sér rangar eða misvísandi upplýsingar. 

mbl.is