Jákvæðar niðurstöður úr rannsókn á bóluefni

Fólk með grímur fyrir andlitunum á gangi í miðborg Moskvu.
Fólk með grímur fyrir andlitunum á gangi í miðborg Moskvu. AFP

Fólk sem tók þátt í prófunum á rússnesku bóluefni gegn kórónuveirunni þróaði með sér mótefni „með engum alvarlegum aukaverkunum“.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem var birt í læknatímaritinu The Lancet.

Sérfræðingar segja engu að síður að of fáir hafi tekið þátt í þessum prófum til að hægt sé að sanna öryggi og virkni bóluefnisins.

Rússar tilkynntu í síðasta mánuði að bóluefnið þeirra „Spútnik V“, sem er nefnt eftir sovéskum gervihnetti sem var fyrst skotið á loft í geiminn árið 1957, hefði þegar fengið samþykki.

Vísindamenn á Vesturlöndum settu spurningarmerki við þetta og sögðu að gögn væru ekki til staðar varðandi öryggi bóluefnisins. Sumir vöruðu við því að það gæti verið hættulegt að ráðast í gerð bóluefnis með slíkum hraða.

Rússar vísuðu gagnrýninni á bug og sögðu hana tilraun til að grafa undan rannsóknum í landinu.

Bandarísk kona sprautuð með tilraunabóluefni gegn kórónuveirunni.
Bandarísk kona sprautuð með tilraunabóluefni gegn kórónuveirunni. AFP

Fengu tvo skammta

Í niðurstöðunum sem birtust í The Lancet kemur fram að rússneskir vísindamenn gerðu tvær prófanir. Í hvorri þeirra um sig tóku þátt 38 heilbrigðir einstaklingar, 18 til 60 ára, sem fengu bóluefni í tveimur skömmtum.

Hver þátttakandi fékk fyrst einn skammt af bóluefninu og síðan annan 21 degi síðar. Fylgst var með þeim í 42 daga og allir mynduðu með sér mótefni á fyrstu þremur vikunum.

Í skýrslunni kemur fram að gögnin sýndu að bóluefnið væri bæði öruggt og hefði ekki valdið neinum aukaverkunum hjá sjálfboðaliðunum. Vísindamennirnir undirstrikuðu að fleiri þátttakendur þyrftu að taka þátt í prófunum á lengra tímabili til að hægt væri að skera úr um hvort öryggi og virkni bóluefnisins yrði nægt til að koma í veg fyrir að fólk sýktist af Covid-19.

Naor Bar-Zeev, vísindamaður við Johns Hopkins-háskólann sem tók ekki þátt í rannsókninni, sagði að hún hefði verið „spennandi en lítil að umfangi“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert