Mótmæltu meintum mistökum fjölmiðla

Mótmælendur lokuðu vegum umhverfis tvær prentsmiðjur í Bretlandi. Á myndinni …
Mótmælendur lokuðu vegum umhverfis tvær prentsmiðjur í Bretlandi. Á myndinni má sjá mótmælendur við prentsmiðjuna í Broxbourne. AFP

Meðlimir umhverfishreyfingarinnar Extinction Rebellion (XR) lokuðu götum umhverfis tvær prentsmiðjur í Bretlandi til að reyna að koma í veg fyrir dreifingu fréttablaða á föstudagskvöld.

Fjögur dagblöð, þar á meðal The Sun og Daily Mail, voru víða ekki fáanleg í verslunum á laugardagsmorgun vegna aðgerðanna, sem beindust einna helst að blöðum í eigu Ruperts Murdochs. Guardian greinir frá þessu.

Aðgerðirnar eru hluti af tíu daga mótmælum XR, sem hófust á þriðjudag.

Ráðherrar og þingmenn í Bretlandi hafa keppst við að fordæma aðgerðir mótmælenda. Forsætisráðherrann Boris Johnson sakaði hreyfinguna um að takmarka aðgengi almennings að fréttum.

„Frjálsir fjölmiðlar eru nauðsynlegir til að veita ríkisstjórninni og öðrum valdamiklum stofnunum aðhald í mikilvægum málefnum líkt og baráttunni gegn loftslagsvánni,“ sagði Johnson. „Það er algjörlega óviðunandi að takmarka aðgang almennings að fréttum á þennan hátt.“

AFP

Lokuðu vegum með bílum og bambusmannvirkjum

Mótmælendur lokuðu vegum umhverfis tvær prentsmiðjur með bílum og bambusmannvirkjum. Önnur prentsmiðjan er í Knowsley, í námunda við Liverpool, og hin í Broxbourne í Hertfordskíri norðan Lundúna.

Í prentsmiðjunum er fjöldi dagblaða prentaður, þar á meðal, eins og greint var frá hér að ofan, The Sun og Daily Mail, en einnig Sunday Times, Daily Telegraph og Evening Standard.

Í tilkynningu frá XR segir að fjölmiðlum hafi mistekist að fjalla um umhverfisvána á árangursríkan hátt og aðgerðirnar hafi átt að afhjúpa þau mistök.

AFP

„Leiðtogar okkar hafa leyft stórum hluta fjölmiðla að falla í hendur fimm einstaklinga sem eiga hagsmuna að gæta og tengjast jarðefnaeldsneytisiðnaðinum náið. Við þurfum frjálsa fjölmiðla en höfum þá ekki. Þeir hafa brugðist okkur.“

Aðgerðirnar féllu í grýttan jarðveg, jafnvel hjá þeim sem hafa áður stutt mótmæli XR. Meðal þeirra sem hafa stigið fram gegn þeim eru sjónvarpsmaðurinn dáði og náttúruverndarsinninn David Attenborough, Ian Murrey, formaður breska ritstjórasamfélagsins, og fjölmiðillinn The Guardian.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina