50 manna samkomubann í Kaupmannahöfn

Grímuskylda er í almenningssamgöngum í Danmörku.
Grímuskylda er í almenningssamgöngum í Danmörku. AFP

Ríkisstjórn Danmerkur tilkynnti í morgun hertar samkomutakmarkanir í Kaupmannahöfn, 16 öðrum sveitarfélögum á stórhöfuðborgarsvæðinu og Óðinsvéum.

Meðal helstu breytinga eru að samkomubann miðast nú við 50 manns í stað 100. Þá verður skemmtistöðum ekki heimilt að hafa opið lengur en til miðnættis. Síðustu vikur hafa þeir mátt halda opnu til klukkan tvö á nóttunni, en þó með þeim takmörkunum að engir nýir gestir eru velkomnir eftir klukkan 23.

Breytingunum er ætlað að stemma stigu við fjölgun kórónuveirusmita á þéttbýlustu svæðum landsins síðustu vikur. Nýgengi smita, fjöldi smita á hverja 100.000 íbúa síðustu 14 daga, mælist nú 24,5 í Danmörku samanborið við 12,5 á Íslandi (að landamærum undanskildum). Verst er ástandið á helstu þéttbýlisstöðum, svo sem Kaupmannahöfn, þar sem nýgengið er um 40.

Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra Danmerkur, sagði á blaðamannafundi í morgun að staða faraldursins hefði ekki verið alvarlegri frá því í vor. Ráðherrann hafði sérstaklega orð á því hve margt ungt fólk væri meðal hinna nýsmituðu og beindi þeim tilmælum til ungs fólks að takmarka samskipti. Þá hvatti hann til þess að viðburðum á vegum nemendafélaga á öllum skólastigum yrði aflýst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert