Eldsupptök rakin til kynjaveislu

Slökkviliðsmaður úr sýslunni San Miguel berst við skógarelda.
Slökkviliðsmaður úr sýslunni San Miguel berst við skógarelda. AFP

Yfirvöld í Kaliforníu segja að upptök eins af mörgum skógareldum í ríkinu megi rekja til kynjaveislu, þar sem gestum er greint frá kyni barns.

Reykvél sem var notuð í veislunni varð til þess að eldur braust út í El Dorado sem nú hefur breiðst út á svæði sem nær yfir um sjö þúsund ekrur og er einn af yfir tuttugu skógareldum í Kaliforníu, að sögn BBC

Mikil hitabylgja gengur nú yfir Kaliforníu. Í borginni Los Angeles fór hitinn upp 49,4 gráður á celsíus.

Bandaríska veðurstofan sagði gærdaginn „einn af heitustu dögunum síðan veðurathuganir hófust víðs vegar um suðvesturhluta Kaliforníu“.

Kanína hleypur yfir veginn í Jamul í Kaliforníu á meðan …
Kanína hleypur yfir veginn í Jamul í Kaliforníu á meðan skógareldar geisa. AFP

Í síðasta mánuði mældist 54,4° hiti í Dauðadalnum í ríkinu, sem gæti verið hæsta hitastigið sem hefur mælst í veðurathugunum á jörðinni.

Þyrlur björguðu um helgina yfir 200 manns sem lokuðust inni í skógareldum á vinsælu útivistarsvæði við Mammoth Pool-uppistöðulónið. Að minnsta kosti 20 slösuðust, þar af einhverjir sem hlutu brunasár.


 

mbl.is