Navalní kominn úr dái

Alexei Navalní.
Alexei Navalní. AFP

Alexei Navalní, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar, er kominn úr lyfjadái og verið er að venja hann af öndunarvél.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sjúkrahússins Charite í Berlín. Þangað var Navalní fluttur frá Rússlandi og segja þýskir læknar að eitrað hafi verið fyrir honum.

Í yfirlýsingunni kemur fram að Navalní, sem er 44 ára, sé á batavegi. Of snemmt er að segja til um langtímaáhrifin af völdum eitrunarinnar.

Navalní veiktist um borð í flugvél í Síberíu í síðasta mánuði. Þýska ríkisstjórnin sagði í síðustu viku að „ótvíræð sönnunargögn“ sýndu að Navalní hafi verið byrlað taugaeitrið novichok.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, krafðist í framhaldinu svara frá Rússum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert