Fyrirmyndir hennar drepnar þennan dag

Corinne Rey, starfsmaður hjá franska vikuritinu Charlie Hebdo, hafði farið út til að reykja morguninn 7. janúar 2015 þegar bræðurnir Cherif og Said Kouachi komu til hennar og neyddu til að slá inn aðgangsorðið að skrifstofu ritsins. Til þess að leggja áherslu á orð sínu beindu þeir Kalashnikov-rifflum að henni. 

„Ég fylltist ofsahræðslu,“ segir Rey, sem er teiknari. Hún bar vitni við réttarhöldin yfir 14 manns í tengslum við hryðjuverkaárásir sem framdar voru á tveimur dögum í París snemma í janúar 2015. Árásir sem mörkuðu upphaf bylgju vígaverka sem kostuðu hundruð mannslífa.

Hún lýsti líðan sinni þegar hún gekk upp tröppurnar áður en hún kom að skrifstofu Charlie Hebdo. Hvernig þeir héldu rifflunum þétt að henni.  

Teiknarinn Corinne Rey - öðru nafni Coco, bar vitni í …
Teiknarinn Corinne Rey - öðru nafni Coco, bar vitni í gær. AFP

„Ég var niðurbrotin eins og skugginn af sjálfri mér. Ég gat ekki gert neitt. Ég gekk að lyklaborðinu og sló aðgangsorðið inn,“ rifjaði hún upp. „Ég fann að hryðjuverkamennirnir voru að nálgast markmiðið og fann hvernig spennan jókst hjá þeim,“ sagði Rey. 

Hún segir að þeir sem voru drepnir þennan dag hafi verið fyrirmyndirnar í hennar lífi. Ekki bara hæfileikaríkt fólk heldur einnig gott fólk og skemmtilegt. „Það er ekki auðvelt að vera fyndinn en þeim tókst það.“

Rey segir að enn fimm árum síðar glími hún við minningar frá árásinni og jafnvel sektarkennd. „Það tók mig langan tíma til að skilja að það er ekki ég sem er sek. Einu sökudólgarnir eru íslömsku hryðjuverkamennirnir. Kouachis-bræðurnir og þeir sem hjálpuðu þeim,“ segir Rey.

Þegar þau komu inn á skrifstofuna skutu árásarmennirnir á Simon Fieschi, netstjóra vefsíðu Charlie Hebdo. Rey faldi sig undir borði. „Eftir skothvellina varð þögn – dauðaþögn. Ég hélt að þeir ætluðu að ljúka verkinu með því að skjóta alla þá sem þeir höfðu ekki þegar drepið.“

En eftir að hafa drepið tíu manns á skrifstofunni yfirgáfu vígamennirnir staðinn og skildu eftir sig vígvöll.

„Ég sá fótlegg Cabu. Wolinski hreyfði sig ekki. Ég sá Chard – þá hlið andlitsins sem var náföl. Riss var særður og hann sagði við mig: Coco (Rey er kölluð Coco) ekki hafa áhyggjur,“ sagði Rey við réttarhöldin í gær. 

Jean Cabut, sem var kallaður Cabu, Georges Wolinski og Stephane „Charb“ Charbonnier, voru meðal þekktustu teiknara Frakklands. Þeir voru allir drepnir í fjöldamorðinu. 

Laurent Sourisseau, sem er kallaður Riss, var skotinn en lifði af. Hann er nú ritstjóri Charlie Hebdo. 

Sigolene Vinson skrifar pistla um lögfræðileg málefni.
Sigolene Vinson skrifar pistla um lögfræðileg málefni. AFP

Sigolene Vinson var í heimsókn á skrifstofu Charlie Hebdo þegar árásin var gerð en hún skrifaði pistla í vikuritið um lögfræðileg málefni. Hún segist hafa horft í augu Charb þegar fyrstu skothvellirnir ómuðu. „Ég held að Charb hafi vitað hvað væri að gerast,“ segir hún.

Hún minnist þagnarinnar eftir að skothvellirnir hljóðnuðu og fótatak nálagst þar sem hún faldi sig á bak við skilrúm. „Ég áttaði mig á því að morðinginn hafði séð mig og væri að elta mig. Ég hugsaði – það er komið að mér,“ segir Vinson.

En Cherif Kouachi sagðist ætla að þyrma lífi hennar þar sem hann dræpi ekki konur.

Réttarhöldin hófust 2. september og er talið að þau standi þangað til í nóvember. Í síðustu viku endurbirti Charlie Hebdo skopmyndir af Múhameð spámanni í tilefni réttarhaldanna og var því afar illa tekið víða meðal múslíma. 

Ritstjóri Charlie Hebdo, Laurent Sourisseau, öðru nafni Riss.
Ritstjóri Charlie Hebdo, Laurent Sourisseau, öðru nafni Riss. AFP
Fjölmiðlar fylgjast grannt með réttarhöldunum.
Fjölmiðlar fylgjast grannt með réttarhöldunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert