Gerði lítið úr faraldrinum en vissi betur

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður hafa vitað af því hversu banvæn kórónuveiran væri en hafi engu að síður gert lítið úr faraldrinum í fjölmiðlum. Haft er eftir Trump að kórónuveiran væri „banvænt dót“ áður en fyrsta dauðfallið vegna veirunnar í Bandaríkjunum var staðfest. Þetta kemur fram í nýrri bók eftir blaðamanninn Bob Woodward en BBC greinir fyrst frá.

Bob Woodward, höfundur bókarinnar, tók 18 viðtöl Trump frá desember síðastliðnum og þar til í júlí á þessu ári. Woodward er þekktur sem blaðamaðurinn sem sagði fyrst frá Watergate-málinu sem leiddi til þess að Richard Nixon Bandaríkjaforseti sagði af sér embætti forseta árið 1974.

„Banvænt dót“

Líkt og áður sagði er haft eftir Trump að kórónuveiran væri „banvænt dót“ og sagði hann það í viðtali við Woodward áður en fyrsta dauðsfallið í Bandaríkjunum af völdum kórónuveirunnar varð. Trump hafi í kjölfarið gert lítið úr skaðsemi veirunnar í fjölmiðlum og þar með greitt veg veirunnar í Bandaríkjunum en hvergi annars staðar hafa fleiri látið lífið vegna veirunnar, eða um 190 þúsund manns.

Woodward tók upp fundi sína með Trump og á þeim upptökum má heyra Trump segja að hann hafi miklar áhyggjur af uppgangi veirunnar. Síðar hafi Trump sagt í ávarpi til bandarísku þjóðarinnar að veiran væri minna hættuleg en venjuleg flensupest – tilfelli í Bandaríkjunum yrðu brátt engin.

„Maður þarf ekki að snerta alla hluti, fattarðu“

„Hún ferðast gegnum loftið. Það er alltaf erfiðara en þegar um snertifleti er að ræða, maður þarf ekki að snerta alla hluti, fattarðu. En þessi veira er bara í loftinu, og maður verður að anda að sér lofti, þannig smitast hún,“ er haft eftir Trump.

Bókin verður gefin út 15. september en nokkrar tilvitnanir í Trump Bandaríkjaforseta hafa verið gefnar út fyrir fram.

Frétt BBC um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina