„Höfum ekki samþykkt neitt“

Trump ásamt varaforsetanum Mike Pence við kynningu samkomulagsins í síðustu …
Trump ásamt varaforsetanum Mike Pence við kynningu samkomulagsins í síðustu viku. AFP

Fjölmiðlafulltrúi forseta Serbíu dró í dag úr þeim áformum sem Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti í síðustu viku, um að stjórnvöld í Belgrad myndu færa sendiráð sitt í Ísrael til Jerúsalemborgar.

Fulltrúinn, Suzana Vasiljevic, sagði í viðtali í fjölmiðli í landinu í dag að ákvörðunin hefði enn ekki verið tekin að fullu. Ekki er liðin vika frá því Trump tilkynnti ákvörðunina.

Ísrael komst óvænt í sviðsljósið þegar stjórnvöld Serbíu og Kósovó funduðu í Hvíta húsinu í síðustu viku, en eftir fundinn samþykkti Kósovó að viðurkenna Ísraelsríki og Serbía að fylgja frumkvæði stjórnvalda í Washington og færa sendiráð sitt frá Tel Avív til Jerúsalem.

Ísraelski forsætisráðherrann Benjamin Netanyahu var þá snöggur til að fagna því opinberlega að Serbía hefði ákveðið þessa tilfærslu. Trump kynnti þetta einnig á þann hátt að halda mætti að gengið hefði verið frá þessu, en svo reynist ekki vera, miðað við ummæli serbneska fjölmiðlafulltrúans í dag.

Athygli vöktu enda viðbrögð serbneska forsetans Aleksandars Vucic þegar Trump kynnti þetta atriði samkomulags ríkjanna, sem sjá má hér að neðan þegar rúmar tvær mínútur eru liðnar af myndskeiðinu. Vucic situr við borðið vinstra megin.

Ekki skrifað undir neitt

„Í bili höfum við ekki samþykkt neitt, það var ekki skrifað undir neitt,“ er haft eftir Suzönu Vasiljevic.

„Við munum sjá hvernig málið þróast og hvernig Ísrael hegðar sér hvað varðar samband þeirra við Kósovó,“ bætti hún við.

Í ísraelskum fjölmiðlum í dag er haft eftir ónafngreindum heimildarmanni, sem starfi nærri serbneska forsetanum, að Serbar muni ekki færa sendiráð sitt fari svo að Ísrael viðurkenni Kósovó. Viðurkenning Ísraels á Kósovó var einnig hluti þess samkomulags sem Trump kynnti í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert