Játar að hafa myrt Kim Wall

Peter Madsen hefur nú játað að hafa drepið Kim Wall …
Peter Madsen hefur nú játað að hafa drepið Kim Wall um borð í kafbáti sínum 10. ágúst 2017. AFP

Danski kafbátasmiðurinn Peter Madsen hefur játað að hafa orðið sænsku blaðakonunni Kim Wall að bana í kafbát sínum við Køge-flóa, suðaustur af Amager, í ágúst 2017 eftir að hafa boðið henni í kafbátinn til að taka viðtal.

Madsen var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið ári síðar, en hann hefur hingað til haldið fram sakleysi sínu og sagt að Wall hafi látist af slysförum; heldur ótrúverðug málsvörn í ljósi þess að lík Wall fannst sundurlimað úti fyrir ströndum Amager.

Madsen viðurkennir hins vegar morðið í nýrri sjónvarpsþáttaröð sem ber nafnið De hemmelige optagelser (Leyniupptökurnar). Þættirnir byggjast á 20 klukkustunda samtölum rannsóknarblaðamannsins Kristians Linnemanns við Madsen, en Linnemann á að baki 20 ára feril sem rannsóknarblaðamaður. Upptökurnar voru teknar án vitundar Madsens en hann mun síðar hafa gefið leyfi fyrir því að þær yrðu gefnar út.

„Það er mér að kenna að hún dó. Það er mér að kenna því ég framdi glæpinn. Það er allt á mína ábyrgð,“ segir Madsen í þáttunum. Segist hann venjulega ekki vera ofbeldisfullur maður, en spurningar Wall hafi ögrað sér og hann í kjölfarið drepið hana. Sú skýring gengur þó í berhögg við niðurstöður lögreglu, sem segja morðið hafa verið skipulagt.

Þáttaröðin De hemmelige optagelser er sýnd á Discovery Network. Fyrsti þátturinn var birtur klukkan átta í morgun og má nálgast frítt hér. Til þess þarf að stofna aðgang, en þó ekki gefa upp kreditkortaupplýsingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina