Þá er eftir einn

Lögmaðurinn Maxim Znak.
Lögmaðurinn Maxim Znak. AFP

Einn fárra úr Sam­hæf­ing­ar­ráðinu, sam­tök­um stjórn­ar­and­stæðinga í Hvíta-Rússlandi, sem eftir er í landinu, lögmaðurinn Maxim Znak, var tekinn höndum af grímuklæddum mönnum í dag að sögn félaga hans.

Znak, sem er lögmaður fyrrverandi forsetaframbjóðandans Viktors Babarjko, átti að taka þátt í myndskeiðsfundi en mætti ekki. Þess í stað sendi hann skilaboð til hópsins sem innihéldu eitt orð: Grímur. 

Að sögn vitna var Znak handsamaður af hópi manna í borgaralegum fötum með grímur fyrir andliti skammt frá skrifstofu sinni. Alls sitja sjö einstaklingar í Samhæfingarráðinu. Af þeim gengur aðeins einn laus í dag, Svetlana Alexievich, sem er 72 ára gömul og hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2015. 

Í einni bóka Alexievich, sem nefnist Raddir frá Tsjernobyl, eru viðtöl við hundruð manna sem hafa orðið fyrir alvarlegum áhrifum vegna geislunar frá kjarnorkuverinu.

„Ég spyr fólk ekki um sósíalisma heldur um ást, afbrýðisemi, bernskuna, ellina; um tónlist, dansa, hárgreiðslur. Um margbrotin smáatriði horfins lífs,“ skrifar hún í inngangi annarrar bókar. Og bætir við: „Ég horfi á heiminn sem rithöfundur, ekki bara sem sagnfræðingur. Ég er heilluð af fólki,“ sagði hún í viðtali á sínum tíma.

Aðrir í ráðinu hafa annaðhvort verið hnepptir í varðhald eða flúið land. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert