Flugi aflýst vegna grímulauss barns

Grímuskylda er í flugi og í Kanada þurfa börn tveggja …
Grímuskylda er í flugi og í Kanada þurfa börn tveggja ára og eldri að bera grímu um borð. AFP

Flugferð var aflýst í vikunni í Kanada og lögregla kölluð á vettvang vegna þess að barn sem var um borð í flugvélinni var ekki með grímu fyrir brottför. 

Þetta kemur fram í frétt BBC en að sögn Safwan Choudhry fóru starfsmenn WestJet-flugfélagsins fram á að 19 mánaða gömul dóttir hans væri með grímu í fluginu. Það reyndist ómögulegt að halda grímunni fyrir vitum stúlkunnar þar sem hún grét stöðugt. 

Flugfélagið segir aftur á móti að þetta hafi ekki snúist um 19 mánaða gamla dóttur Choudhrys þar sem hún er undir þeim aldursmörkum sem eru sett fyrir grímuskyldu heldur snúist þetta um þriggja ára gamla dóttur Choudhrys.

Á þriðjudagsmorgun var öllum farþegum sem voru komnir um borð í flug 652 frá Calgary til Toronto gert að yfirgefa flugvélina og flugferðinni aflýst. 

Í viðtali við BBC segir Choudhry að hann hafi aldrei upplifað annað eins. Eldri dóttir hans, sem er þriggja ára, hafi verið að borða snarl í sæti sínu skömmu fyrir brottför þegar flugfreyja kom til þeirra og bað foreldrana um að setja grímu á báðar dæturnar. Að sögn Choudhry voru þau hjónin bæði með grímu fyrir vitum sér.

Hann hafi spurt hvort dóttir hans gæti klárað snarlið en flugfreyjan sagði að það væri ekki möguleiki. Engar undartekningar væru gerðar á grímuskyldunni. Útgöngudyrum yrði ekki lokað nema gríma yrði sett á stúlkuna og segist Choudhry hafa samþykkt það strax. Það hafi tekið smá tíma að fá þá þriggja ára gömlu til að samþykkja að setja upp grímuna en tekist að lokum. „En sú yngri átti afar erfitt og var í rauninni móðursjúk,“ segir faðirinn í viðtalinu.

Choudhry segir að þetta hafi endað með því að hún kastaði upp. Hann er mjög ósáttur við viðbrögð starfsmanna WestJet og en þeim hafi verið tjáð að þar sem sú litla var brjáluð og neitaði að vera með grímu þá yrði öll fjölskyldan að fara frá borði. Ef þau myndu ekki hlýða þá ættu þau á hættu að vera handtekin, ákærð og dæmd í fangelsi. 

Að sögn Choudhry var ekkert annað í boði en að yfirgefa flugvélina en margir farþegar um borð hafi sýnt þeim stuðning og mótmælt aðgerðum áhafnarinnar. Þetta endaði með því að áhöfnin hafði samband við lögreglu sem kom um borð og flugferðinni var frestað um sólarhring. 

Að sögn lögreglu var eldra barnið með grímu þegar hún kom um borð og að ekki verði gefin út ákæra í málinu.

Frétt BBC

mbl.is