Hvað verður um hina?

Matarúthlutun á Lesbos í morgun.
Matarúthlutun á Lesbos í morgun. AFP

Tíu aðildarríki Evrópusambandsins hafa samþykkt að taka við 400 börnum sem eru fylgdarlaus á flótta. Börnin voru öll hýst í Moria-flóttamannabúðunum á grísku eyjunni Lesbos. Búðirnar brunnu til kaldra kola í vikunni.

Hvað verður um hin 12 þúsund sem voru í búðunum? Þetta er spurning sem brennur á mörgum, ekki síst þeim sem hafa undanfarnar þrjár nætur sofið undir berum himni á eyjunni. Fjölskyldur sem eru heimilislausar, hungraðar og margar án þess að hafa aðgang að einföldum hlutum eins og teppi eða bedda til að sofa á. 

Sofið við þjóðveginn á Lesbos - myndin var tekin í …
Sofið við þjóðveginn á Lesbos - myndin var tekin í morgun. AFP

„Við höfum misst allt. Við erum skilin eftir án matar, vatns og lyfja,“segir Fatma Al-Hani, sem er frá Sýrlandi. Hún segir fréttamanni AFP-fréttastofunnar að hún hafi varla náð að grípa vegabréfið með sér á flóttanum undan eldinum sem logaði í búðunum aðfararnótt miðvikudags.

Siðferðisleg skylda að fylgja á eftir 

Lesbos er skammt frá Tyrklandi.
Lesbos er skammt frá Tyrklandi. Kort/mbl.is

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, greindi frá því í gær að Þýskaland og Frakkland myndi taka við fylgdarlausum börnum á flótta sem voru í búðunum. Það sé siðferðisleg skylda annarra ríkja Evrópu að fylgja í fótspor ríkjanna tveggja og bjóða flóttafólk velkomið.

Merkel segir nauðsynlegt að ESB axli meiri ábyrgð þegar kemur að stefnu í málefnum fólks í leit að alþjóðlegri vernd. Forsætisráðherra Grikklands, Kyriakos Mitsotakis, tekur í sama streng og segir nauðsynlegt að gripið sé til aðgerða ekki bara talað um hlutina. 

Frá orði til framkvæmda

„Evrópa verður að snúa frá orðræðu um samstöðu til stefnu samstöðuaðgerða. Við verðum að setja umræðuna um flóttafólk í forgang í viðræðum okkar og þær verða að vera áþreifanlegri,“ sagði Mitsotakis á fundi leiðtoga ríkja við Miðjarðarhaf sem er haldinn á Korsíku. 

Holland hefur samþykkt að taka við 100 flóttamönnum úr Moria-búðunum. Helmingur þeirra eru börn. Frakkar og Þjóðverjar hafa samþykkt að taka við nokkur hundruð flóttamönnum, flestir börn að aldri. 

Hvar er mannúðin?

Móðir á göngu á þjóðveginum frá Moria til Mytilene í …
Móðir á göngu á þjóðveginum frá Moria til Mytilene í morgun. AFP

Gaelle Koukanee er 21 árs gömul. Hún er á flótta frá Kongó og á von á barni. „Það eru börn, gamalt fólk og fatlað á meðal okkar. Hvers vegna er þessi skortur á mannúð?“ spyr hún. Hún segir að lögregla hafi sprautað táragasi á íbúa Moria þegar á slökkvistarfinu stóð. 

Flogið var með börn sem eru fylgdarlaus á flótta frá Lesbos til meginlandsins í gær og þeim komið fyrir í öðrum flóttamannabúðum í norðurhluta Grikklands. Þau voru öll skimuð fyrir kórónuveirunni áður en þau komu þangað. 

Frá Lesbos þegar sólin var að koma upp í morgun.
Frá Lesbos þegar sólin var að koma upp í morgun. AFP

Gríska ríkisstjórnin er með áform um að setja upp tímabundið tjaldbúðir á Lesbos fyrir þá sem misstu heimili sín í brunanum. Eyjaskeggjar eru ósáttir við stjórnvöld og hafa komið upp vegatálmum til að koma í veg fyrir að vinnuvélar á vegum yfirvalda getið komist á staðinn þar sem reisa á tjaldbúðir. 

„Nú er tímabært til að loka Moria til frambúðar,“ segir  Vangelis Violatzis, sem situr í bæjarstjórn. „Við viljum ekki aðrar búðir og við munum standa gegn öllum framkvæmdum. Við höfum staðið frammi fyrir þessu ástandi í fimm ár og það er tímabært fyrir aðra að bera þessar byrðar,“ segir hann í viðtali við AFP. 

Fyrsti eldurinn í búðunum kviknaði skömmu eftir miðnætti aðfararnótt miðvikudags. Á miðvikudagskvöldið kviknaði aftur í búðunum og þriðji eldurinn kviknaði í gærkvöldi. 

Sofið við þjóðveginn.
Sofið við þjóðveginn. AFP

Varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, Margaritis Schinas, heimsótti Lesbos í gær og hann segir að skip á vegum ESB verði send til Lesbos til þess að hýsa þá sem eru í mestri neyð. Jafnframt hafi 400 börn verið flutt til meginlandsins og að önnur ríki ESB muni veita þeim skjól. Jafnframt hafa grísk stjórnvöld sent tvö herskip sem er ætlað að veita einhverjum skjól.

Fyrr á árinu var framkvæmdum við byggingu á nýjum flóttamannabúðum á Lesbos frestað vegna óánægju íbúa eyjunnar. Til átaka kom á milli íbúa og óeirðarlögreglu á þeim tíma. 

Líkt og fram hefur komið á mbl.is voru yfir 12 þúsund flóttamenn í Moria-búðunum þegar þær brunnu. Þegar þær voru reistar – gámabyggðin – var gert ráð fyrir 2.800 íbúum. Ástandið í búðunum hefur verið skelfilegt árum saman, skortur á salernum og sturtum og öðrum nauðsynjum. 

„Okkur hefur vantað salerni, sturtur og við konur erum hræddar við að vera á ferli á næturlagi. En nú er ég enn hræddari og það er varðandi framtíðina, segir Gaelle Koukanee.

AFP

Reglur varðandi veitingu alþjóðlegrar verndar hafa verið hertar í Grikklandi, dregið úr fjárframlagi til málaflokksins og ýmislegt gert til þess að koma í veg fyrir að fleiri flýji til Grikklands.

Frétt mbl.is

„Þetta er Evrópa,“ segir Fatma og faðmar tveggja ára gamlan son sinn á meðan hún ræðir fyrir fréttamann AFP. „Ég hef fengið nóg og það eina sem ég bið um er að barn mitt fái að alast upp á friðsælum stað.“

Enginn fær að fara inn fyrir hlið Moria enda óttast yfirvöld að eldur geti kviknað hvenær sem er líkt og gerst hefur undanfarna daga. Blaðamaður Guardian lýsir því þar sem ungur maður kemur til lögreglunnar og spyr hvort hann megi fara þangað inn fyrir og ná í dótið sitt. Nei er svarið og biðja hann um að koma daginn eftir. Kannski verður óhætt að fara inn í búðirnar í dag?

Beðið í röð eftir vatni og mat á bílastæði matvöruverslunar …
Beðið í röð eftir vatni og mat á bílastæði matvöruverslunar skammt frá Moria-búðunum á Lesbos í morgun. AFP

Einhverjir hafa náð að sækja dótið sitt. Þeirra á meðal er  Somaya, 27 ára stjórnmálafræðingur frá Afganistan. Hún reynir að pakkar dótinu sínum saman. Það fer ekki mikið fyrir eigum hennar. Ekkert frekar en eigum annarra í Moria. Eða réttara sagt þeirra sem áttu heima í Moria en eru núna á vergangi.

Frá aðfararnótt miðvikudags hefur hún sofið í vegkanti líkt og þúsundir annarra. „Síðasta nótt var mjög slæm. Við erum allslaus,“ segir hún.

Ali sem er 19 ára er einn þegar blaðamaður Guardian ræðir við hann en hann var einn á flótta til Evrópu. Hann segir í samtali við Guardian að fólk reyni að komast af. Fólk hafi komið sér fyrir við inngang matvöruverslana og fyrir utan lögreglustöðina. „Við höfum ekki aðra staði til að fara á,“ segir hann.

AFP

Þrátt fyrir að flóttafólkið hafi fengið sendan mat þá er það ekki nóg og Ali segist ekki hafa borðað í tæpa tvo daga. Það versta sé samt óvissan. Hvað verður um okkur?

Faris Al-Jawad, sem starfar fyrir Lækna án landamæra (Médecins Sans Frontières) segir að starfsmenn samtakanna hafi sinnt smábörnum vegna reykeitrunar sem og börnum sem hafa verið á götum úti í tvö daga. Hann segir viðbrögð yfirvalda takmörkuð og það þurfi að flytja fólk á brott strax. 

Innanríkisráðherra Þýskalands, Horst Seehofer, staðfesti í morgun að 10 ríki ESB muni taka við 400 fylgdarlausum börnum. Flest þeirra fara til Þýskalands og Frakklands, alls 200-300.  Seehofer greindi frá þessu á blaðamannafundi sem hann hélt ásamt  Schinas í morgun.

Margaritis Schinas segir að þetta sýni að nauðsynlegt sé fyrir ESB til að gera endurbætur á stefnu sinni í málefnum flóttafólks. Hann segir að framkvæmdastjórnin muni kynna drög að nýrri stefnu í lok september. 

AFP

Áætluninni hefur ítrekað verið frestað vegna ósamkomulag varðandi flutning flóttafólks til ríkja ESB. Lönd eins og Pólland, Ungverjaland, Tékkland og Slóvakía hafa neitað að taka þátt í móttöku flóttafólks.

Schinas segir að ekki sé hægt að ætlast til þess að aðeins þau ríki sem liggja að ytri mörkum sambandsins eða stór ríki eins og Þýskaland taki á sig ábyrgðina. „Við þurfum á sannri samstöðu að halda í flóttamannastefnu okkar,“ segir hann.

Þessi fjölskylda er að nálgast hafnarbæinn Mytilene en hún hefur …
Þessi fjölskylda er að nálgast hafnarbæinn Mytilene en hún hefur verið heimilislaus frá því að það kviknaði í Moria-búðunum. AFP
Hvert sem litið er þá blasir við fólk sem er …
Hvert sem litið er þá blasir við fólk sem er allslaust eftir eldsvoða. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert