Kim sagði Trump frá morðinu á Jang

Kim Jong Un.
Kim Jong Un. AFP

„Kim segir mér allt. Sagði mér allt,“ sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, við rannsóknarblaðamanninn Bob Woodward, að því er fram kemur í bókinn Rage sem er væntanleg í verslanir eftir helgina. 

„Hann drap frænda sinn og kom líkinu fyrir á tröppunum,“ sagði Trump og vísaði til byggingar sem notuð er af háttsettum embættismönnum í Norður-Kóreu. „Og höfuðið var höggvið af og komið fyrir á bringunni,“ bætti Trump við.

Um er að ræða Jang Song-Thaek, eiginmann föðursystur Kim Jong-Un, sem Kim lét taka af lífi í desember 2013. Jang var álitinn næstæðsti embættismaður landsins þar til í odda skarst með honum og Kim Jong-Un. Talið er að þeir hafi deilt um efnahagsmál.

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa aldrei upplýst um hvernig Jang var tekinn af lífi en yfirleitt hefur því verið haldið fram að hann hafi verið skotinn til bana.

Vitnisburður Trumps, sem talinn er eiga að sýna náið samband leiðtoganna tveggja, er sá fyrsti sem kemur frá háttsettum einstaklingi um aðJang hafi verið afhöfðaður.  

Bob Woodward og Donald Trump.
Bob Woodward og Donald Trump. AFP

Undanfarna daga hafa fjölmiðlar birt fréttir upp úr bókinni Rage sem er beðið með mikilli eftirvæntingu. Formlegur útgáfudagur er 15. september en bandarískir fjölmiðlar hafa fengið að birta glefsur úr bókinni undanfarna daga.

Umfjöllun Washington Post um bókina en Woodward hefur starfað á blaðinu frá árinu 1971. Hann er sennilega þekktastur fyrir umfjöllun sína um Watergate-málið en 13 af bókum hans hafa farið í fyrsta sæti metsölulista vestanhafs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert