Nauðguðu tveimur unglingsstúlkum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Ítalska lögreglan hefur handtekið fjóra unga menn grunaða um að hafa tekið þátt í hópnauðgun á tveimur breskum unglingsstúlkum í afmælisveislu á mánudagskvöldið.

Stúlkurnar, sem eru báðar um 15 ára, voru gestir í afmælisveislu í bænum Marconia di Pisticci í Basilicata-héraði á Suður-Ítalíu. Íbúar bæjarins eru um 12 þúsund talsins.

Að sögn saksóknara í borginni Matera, Pietros Argentinos, virðist sem tveir menn hafi notfært sér að þær voru undir áhrifum áfengis og dregið þær út með sér. Tveir félagar þeirra hafi síðan bæst í hópinn og hópurinn nauðgað stúlkunum tveimur á akri skammt frá þorpinu. Samkvæmt fréttum fjölmiðla í héraðinu voru þær beittar líkamlegu ofbeldi áður en kynferðisofbeldið hófst. 

Þegar þær komust heim til sín, en önnur þeirra á ættingja í bænum, sögðu þær foreldrum sínum hvað hefði gerst. Lögregla og sjúkralið kom á vettvang og þær voru fluttar með sjúkrabílum á sjúkrahús í Matera. 

Lögreglan handtók mennina sem eru allir frá Marconia di Pisticci en þeir eru á aldrinum 19-23 ára. Einhverjir þeirra eru á sakaskrá. Fjögurra til viðbótar er leitað í tengslum við rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert