Réttað yfir lögreglumönnum í máli Floyd

Mótmælendur við dómshúsið í Minneapolis í dag.
Mótmælendur við dómshúsið í Minneapolis í dag. AFP

Derek Chauvin, lögregluþjónninn fyrrverandi, sem ákærður er fyrir að hafa myrt George Floyd kom fyrir dómara í fyrsta sinn í dag. Chauvin er ákærður fyrir morð, en til vara manndráp af gáleysi en myndband náðist af honum þar sem hann kraup á hálsi Floyd í níu mínútur meðan hann Floyd barðist við að ná andanum og öskraði í sífellu á hjálp.

Chauvin, og lögreglumennirnir þrír sem voru með honum á vakt, hafa óskað eftir því að réttað verði yfir þeim hverjum í sínu lagi en gögn réttarins sýna að þeir leitist allir við að koma sökinni hver á annan.

Chauvin heldur því sjálfur fram að Floyd hafi dáið úr ofneyslu fentanýls en hann sakar tvo aðra lögregluþjóna um að hafa ekki metið ástand Floyds með réttum hætti.

Saksóknarar sögðu við réttinn í morgun að sú fullyrðing væri fráleit. Réttað skyldi yfir fjórmenningunum, Chauvin, Thomas Lane, Alexander Keung og Tou Thao, í einu lagi þar sem „þýðingarmikil sönnunargögn“ bentu til þess að þeir hefðu unnið náið saman þegar Floyd var drepinn.

Lögreglumennirnir fjórir sem ákærðir eru fyrir morðið. Derek Chauvin er …
Lögreglumennirnir fjórir sem ákærðir eru fyrir morðið. Derek Chauvin er lengst til vinstri. AFP

Drápið vakti mikinn óhug og reiði um öll Bandaríkin og varð kveikjan að stórfelldri mótmælaöldu sem geisað hefur um Bandaríkin síðan, þar sem þess er krafist að kerfisbundnir kynþáttafordómar innan lögreglu í Bandaríkjunum verði upprættir. Tugir manna söfnuðust saman fyrir utan dómshúsið í Minneapolis til að krefjast réttlætis og hrópuðu nafn Floyds auk slagorðsins „Black Lives Matter“ (Svört líf skipta máli).

Fyrirtaka málsins í dag sneri einkum að því að tryggja örygg og sanngjörn réttarhöld, sem áætlað er að hefjist í mars á næsta ári. Vegna þess hve mikla umfjöllun málið hefur fengið gæti orðið vandkvæðum bundið að skipa óháðan kviðdóm. Verjendur sakborninganna óttast að ekki sé hægt að tryggja óhæði kviðdómaranna þar sem þeir geti lesið sér svo mikið til um málið á netinu. Hafa þeir óskað eftir að málið verði fært í annað umdæmi þar sem ekki sé hægt að tryggja óhæði í Minneapolis. Dómari hefur tekið sér frest til að ákveða hvort orðið verði við þeirri bón.

Teiknuð mynd úr réttarsalnum í morgun.
Teiknuð mynd úr réttarsalnum í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert