Tóku glímukappa af lífi

Navid Afkari var tekin af lífi í borginni Shiraz.
Navid Afkari var tekin af lífi í borginni Shiraz. Ljósmynd/Twitter

Írönsk stjórnvöld hafa tekið glímukappann Navid Afkari af lífi. Ýmsir þjóðarleiðtogar og mannréttindafrömuðir höfðu kallað eftir því að Navid yrði sýnd miskunn.

Navid, 27 ára, var dæmdur til dauða fyrir morðið á öryggisverði í mótmælum gegn yfirvöldum árið 2018. Navid hélt því alla tíð fram að hann hefði verið þvingaður til að játa á sig morðið. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti var á meðal þeirra sem biðluðu til íranskra stjórnvalda um að þyrma lífi glímukappans. 

Fram kemur á BBC að Navid hafi verið hengdur í borginni Shiraz í suðurhluta landsins. Bræður Navids, Vahid og Habib, voru dæmdir til 54 og 27 ára fangelsisvistar vegna sama máls. 

Á upptöku úr fangelsinu þar sem Navid var í haldi og lekið var til íranskra miðla má heyra hann halda því fram að hann hafi verið pyntaður. Þá hefur móðir hans sagt að synir sínir hafi verið þvingaðir til að bera vitni hver gegn öðrum.

mbl.is