Best fyrir dómstólinn ef Róbert Spanó segði af sér

Róbert Spanó, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, og Recep Erdogan, forseti Tyrklands.
Róbert Spanó, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, og Recep Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Einn helsti sérfræðingur í mannréttindamálum Tyrklands og starfsemi Mannréttindadómsstóls Evrópu telur að Róbert Spanó ætti að segja af sér vegna heimsóknar sinnar til Tyrklands.

Þetta kemur fram í pistli sem dr. Dilek Kurban, lögfræðingur sem hefur rannsakað dómstólinn ítarlega, og er sérfræðingur í mannréttindamálum í Tyrklandi, ritar.

Dr. Kurban segir að tímasetning heimsóknarinnar hafi verið afar slæm vegna þerra aðstæðna sem ríkja í Tyrklandi þessa stundina. Recep Erdogan, forseti Tyrklands, hafi upprætt allar leifar réttaríkisins og sjálfstæði dómsvaldsins.

Skorti pólitíska reynslu

Í kjölfar valdaránstilraunar árið 2016 hafi tugir þúsunda verið handteknir vegna gruns um aðild að valdaránstilrauninni, þar á meðal stjórnmálamenn, blaðamenn, dómarar og aðgerðasinnar. Einnig hafi dómsvaldið verið svo gott sem afnumið í ríkinu, en dómstóllinn hefur ítrekað tekið má Tyrkja fyrir á síðustu árum.

Þetta eigi Róbert að vita manna best vegna fyrri starfa sinna sem dómari við dómstólinn.

Í heimsókninni hafi forsetinn talað eins og háskólaprófessor.
Í heimsókninni hafi forsetinn talað eins og háskólaprófessor. AFP

Í pistlinum fer dr. Kurban hörðum orðum um heimsókn Róberts. Þar á meðal skrifar hún að forsetinn hefði getað nýtt heimsókn sína til að hvetja tyrknesk stjórnvöld til að taka á þessum málum, en vegna „skorts á pólitískri reynslu, naiveté, eða, verst af öllu, þeirri trú að Tyrkland ætti ekki að lúta sömu lögum og önnur frjálslynd lýðræði, leyfði hann sér að verða opinber sýnigripur fyrir Erdogan”.

Í heimsókninni hafi forsetinn talað eins og háskólaprófessor, en ekki eins og forseti Mannréttindadómstólsins. Hann hafi haldið ræðu um akademískt frelsi í skóla sem virði ekki þá hugmynd, og að það fari ekki saman að vera forseti dómstólsins og hljóta heiðursdoktorsgráður frá slíkri stofnun á sama tíma.

Hafi skaðað orðspor dómstólsins

Kurban segir að Róbert hafi gerst sekur um mörg siðferðisglöp í heimsókn sinni og að hann hafi gert stöðu dómstólsins óbærilega. Hann hafi látið mynda sig með einstaklingum tengdum málum sem eru á borði dómstólsins, og að hann hafi aðeins hitt meðlimi AKP-flokksins, en ekki meðlimi stjórnarandstöðunnar.

Með þessu hafi Róbert sýnt fram á skort á þeim siðferðislegu stöðlum sem krefst til að gegna embætti forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, en að hann hafi einnig skaðað orðspor dómstólsins með atferli sínu. Margir Tyrkir treysti nú ekki á það að dómstóllinn muni veita þeim sanngjarna meðferð. Þess vegna telur dr. Kurban að það væri best fyrir dómstólinn ef Róbert segði af sér.

Margir Tyrkir treysti nú ekki á það að dómstóllinn muni …
Margir Tyrkir treysti nú ekki á það að dómstóllinn muni veita þeim sanngjarna meðferð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert