Áfram í varðhaldi í Namibíu næstu þrjá mánuði

Bern­h­ar­dt Esau, fyrrverandi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Namib­íu þarf að sitja í varðhaldi …
Bern­h­ar­dt Esau, fyrrverandi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Namib­íu þarf að sitja í varðhaldi í allavega þrjá mánuði í viðbót meðan málið er til rannsóknar. Ljósmynd/Sjávarútvegsráðuneyti Namibíu

Sjö einstaklingar sem sitja í haldi namibískra yfirvalda í tengslum við meinta spillingu og peningaþvætti í tengslum við starfsemi Samherja í landinu verða áfram í varðhaldi í allavega þrjá mánuði til viðbótar.

Þeir hafa flestir setið í varðhaldi frá því snemma í desember á síðasta ári. Þetta er niðurstaða dómstóls í Namibíu, en það er namibíski fjölmiðillinn Informanté sem greinir frá.

Dómarinn í málinu veitti heimild fyrir framlengingu varðhaldsins, að ósk saksóknara, vegna uppbyggingar þess og umfangs. Þá var vísað til þess að Covid-19 faraldurinn hefði tafið rannsóknina. Samkvæmt úrskurðinum nú verða sjömenningarnir í varðhaldi til 14. desember.

Fyrrverandi ráðherrar

Höfðu verjendur sjömenninganna mótmælt kröfu saksóknarans, en fyrr á þessu ári neitaði dómstóllinn því að höfuðpaurar málsins fengju að ganga lausir gegn tryggingu þar sem sönnunargögn málsins bentu til sektar þeirra.

Um er að ræða Bern­ard Esau, fyrr­ver­andi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra lands­ins, Tam­son Hatuikulipi, tengda­son­ hans, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður ríkisútgerðarfélagsins Fishcor, sjóðstjórinn Ricardo Gustavo, Pius Mwatelulo og Mike Nghipunya.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert