Í dái eftir handtöku lögreglu

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Ástralskur karlmaður er nú í dái eftir að hafa orðið fyrir lögreglubíl og fengið spörk í höfuðið þegar lögregla reyndi að handtaka hann í Melbourne, Ástralíu. 

Maðurinn, sem er 32 ára, var fluttur á gjörgæslu eftir atvikið. Hann hafði verið á sjúkrahúsi vegna andlegra veikinda og var lögregla kölluð til þegar hann yfirgaf sjúkrahúsið.

Keyrði aftan á hann

Lögregluyfirvöld í Victoriu-ríki segja að maðurinn hafi hegðað sér hættulega gagnvart lögregluþjónunum. Myndband af atvikinu sýnir lögregluþjón traðka á höfði mannsins áður en hann og fjórir lögreglumenn til viðbótar halda manninum niðri á jörðinni. 

Í myndbandinu má enn fremur sjá manninn ganga á miðri götunni og veifa höndum fyrir framan bifreið lögreglunnar. Maðurinn snýr sér síðan við og gengur rólega í burtu áður en lögreglubílinn keyrir aftan á hann. 

Faðir mannsins hefur kallað eftir því að málið verði rannsakað af óháðum aðila. „Þetta er eins og að horfa á myndband frá Bandaríkjunum eða Beirút,“ er haft eftir föðurnum á BBC. 

mbl.is