Bjóða milljónir í laun fyrir þann sem finnur árásarmanninn

Myndband af árásinni sýnir einstakling skjóta lögregluþjónana þar sem þeir …
Myndband af árásinni sýnir einstakling skjóta lögregluþjónana þar sem þeir sitja í bifreið sinni. Ljósmynd/Twitter

Lögreglan í Los Angeles í Kaliforníuríki hefur leitað án árangurs að skotárásarmanni sem skaut tvo lögregluþjóna úr „launsátri“ í borginni um helgina. 

Lögreglustjóri Los Angeles tilkynnti í dag að 100.000 bandaríkjadala laun væru í boði fyrir þann sem næði árásarmanninum, sem jafngildir rúmlega 13,5 milljónum króna. 

Í myndbandi af atvikinu má sjá einstakling nálgast bifreið lögregluþjónanna tveggja með skotvopn. Einstaklingurinn skýtur lögregluþjónana nokkrum sinnum og hleypur síðan í burtu. Lögregluþjónarnir, karl og kona, eru þungt haldin eftir árásina. Konan, sem er 31 árs, var skotin í kjálka og handleggi, en félagi hennar, 24 ára, var skotinn í enni, handleggi og hendur. 

Að sögn lögreglu er árásarmaðurinn svartur einstaklingur á aldursbilinu 28 til 30 ára. 

Málið hefur dregið athygli að þeirri hættu sem stafar af lögregluþjónum vestanhafs við störf sín. „Þetta er raunverulegt fólk að sinna erfiðri vinnu, og þetta sýnir hætturnar sem fylgja starfinu, á augnabliki,“ sagði lögreglustjóri Los Angeles, Alex Villanueva, um atvikið. 

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti deildi mynd­bandi af at­vik­inu. „Skepn­ur sem þarf að slá niður af afli,“ skrifaði for­set­inn. „Ef þau deyja – hröð réttarhöld og dauðarefsing. Það er eina leiðin til að stoppa þetta,“ skrifaði forsetinn enn fremur. 

„Þessi grimmdarlega árás er óforsvaranleg og árásarmaðurinn þarf að vera sóttur til saka. Ofbeldi í hvaða formi sem er er rangt; þeir sem fremja ofbeldisverk þurfa að sæta refsingu,“ sagði Joe Biden, forsetaefni demókrata fyrir komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum, um árásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert