„Það mun byrja að kólna“

Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf í skyn á fundi í Kaliforníu í dag að hlýnun jarðar muni snúast við af sjálfsdáðum. Auk þess sagði hann hlýnun jarðar ekki hafa valdið skógareldunum á vesturströnd Bandaríkjanna.

Embættismenn í Kaliforníu sögðu á fundinum að hækkandi hitastig væri orsök skógareldanna, sem hafa orðið að minnsta kosti 35 manns að bana síðan í byrjun sumars.

„Það mun byrja að kólna, sjáið bara til,” sagði Trump.

„Ég vildi óska að vísindin væru sammála þér,” svaraði Wade Crowfoot, yfirmaður náttúruverndarstofnunar Kaliforníu.

Trump endurtók einnig ummæli sín um að ástæðan fyrir skógareldunum væri léleg stjórn í tengslum við viðhald skóganna. „Hvað skógana varðar þá falla tré niður eftir stuttan tíma, um 18 mánuði, þau verða mjög þurr. Þau verða eins og eldspýtur,” bætti hann við. „Þau hreinlega springa.”

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina