„Halló þetta er Navalní“

„Halló þetta er Navalní,“ segir í fyrstu færslu rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalnís á Instagram frá því hann losnaði úr öndunarvél á gjörgæsludeild sjúkrahúss í Berlín.

Navalní er ásamt Júlíu eiginkonu sinni og tveimur börnum á myndinni sem fylgir með færslunni en flogið var með hann til Þýskalands nokkrum dögum eftir að hann veiktist alvarlega um borð í flugvél í Síberíu í síðasta mánuði. 

„Í gær gat ég andað sjálfur allan daginn,“ segir hann í færslunni. Hann segir tilfinninguna góða og segir þetta gæði sem allt of oft eru vanmetin. „Ég mæli með þessu,“ segir hann í gríni við fylgjendur og bætir við: „Ég sakna ykkar.“

Þýsk yfirvöld greindu frá því í gær að rannsóknir sem gerðar voru á rannsóknarstofum í Frakklandi og Svíþjóð sýndu fram á að eitrað hefði verið fyrir Navalní með novichok-taugagasi. Það er sama niðurstaða og þýskar rannsóknarstofur komust að. Bandamenn Navalnís segja þetta sýna fram á að rússneska ríkið geti eitt staðið á bak við banatilræðið þar sem eitrið er á bannlista yfir efnavopn. Þessu neita rússnesk yfirvöld og segja að læknar í Rússlandi hafi ekki fundið neinar leifar eiturs í líkama Navalnís.

Mynd af reikningnum @navalny á Instagram, Alexei Navalní er hér …
Mynd af reikningnum @navalny á Instagram, Alexei Navalní er hér ásamt fjölskyldu sinni á Charite sjúkrahúsinu í Berlín. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert