Dreifði fölsuðu myndbandi af Biden

Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem hefur sagt forsetaframbjóðanda Demókrata Joe Biden ætla sér að hvetja til ofbeldisfullra glæpa, dreifði fölsuðu myndskeiði á samfélagsmiðlinum Twitter í dag hvar Biden virðist spila rapplag sem inniheldur texta sem er andsnúinn lögreglunni. 

Í falsaða myndbandinu, sem má sjá fyrir neðan (myndskeiðið fyrir ofan sýnir við hvaða lag Biden steig nokkur létt spor í raun), sem Twitter merkti síðar sem falsefni (e. manipulated media), stendur Biden í ræðustól, tekur farsímann sinn upp og segir áhorfendunum: „Ég hef bara eitt að segja.“

Hann virðist þá spila mótmælalag hipphoppsveitarinnar N.W.A „Fuck Tha Police“, sem mætti þýða á íslenska tungu sem „Fari lögreglan til fjandans“, og dansa örlítið, brosandi. 

Eftir nokkrar sekúndur segir hann: „Ef ég hefði hæfileika einhverra þessara manna væri ég kosinn forseti við mikinn fögnuð.“

Spilaði Despacito, ekki Fuck Da Police

Í færslunni sem hann setur inn með myndbandinu skrifar Trump: „Kína slefar núna.“

Eins og áður segir er myndbandið falsað. Myndbrotið er tekið úr kosningaferð Bidens til Flórída í dag. Þar tók Biden upp símann sinn og spilaði nokkrar sekúndur af lagi Luis Fonsi, „Despacito“, en Fonsi hafði rétt áður kynnt frambjóðandann á svið. 

Trump hefur haldið því fram að hann ætli sér að halda Ameríku öruggri frá vinstrisinnuðum múg og er það eitt af hans aðalkosningaloforðum.

Joe Biden og Donald Trump berjast um forsetaembættið. Kosningar verða …
Joe Biden og Donald Trump berjast um forsetaembættið. Kosningar verða haldnar í Bandaríkjunum í byrjun nóvember. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina